Fótbolti

Klinsmann í klípu eftir tap fyrir Gvatemala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klinsmann þarf að snúa gengi bandaríska landsliðsins við.
Klinsmann þarf að snúa gengi bandaríska landsliðsins við. vísir/getty
Það heldur áfram að hitna undir Jürgen Klinsmann, þjálfara bandaríska landsliðsins í fótbolta, eftir að hans menn töpuðu óvænt fyrir Gvatemala, 2-0, á útivelli í undankeppni HM 2018 í nótt.

Rafael Morales og Carlos Ruíz skoruðu mörk Gvatemala á fyrstu 15 mínútum leiksins en þetta var fyrsti sigur liðsins á Bandaríkjunum síðan 1988.

Liðin mætast öðru sinni í Columbus, Ohio á þriðjudaginn þar sem Bandaríkjamenn verða að ná í sigur ætli þeir sér að komast í næstu umferð undankeppninnar.

Lærisveinar Klinsmann byrjuðu undankeppnina á því að vinna stórsigur, 6-1, á St. Vincent/Grenadines en hafa síðan ekki skorað mark í tveimur leikjum í röð og aðeins fengið eitt stig út úr þeim.

Bandaríkin eru í 3. sæti C-riðils undankeppninnar með fjögur stig, tveimur stigum á eftir Gvatemala og þremur á eftir toppliði Trinídad og Tóbagó. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í úrslitariðilinn sem samanstendur af sex liðum.

Klinsmann hefur sætt mikilli gagnrýni að undanförnu vegna slælegs árangurs bandaríska liðsins og eftir ósigurinn í nótt verða þær gagnrýnisraddir enn háværari.

Aron Jóhannsson, framherji Werder Bremen, lék ekki með Bandaríkjunum í nótt vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×