Fótbolti

Punyed á skotskónum með El Salvador

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pablo Punyed lék sinn 17. landsleik fyrir El Salvador í nótt.
Pablo Punyed lék sinn 17. landsleik fyrir El Salvador í nótt. vísir/getty
ÍBV átti tvo fulltrúa í byrjunarliði El Salvador sem gerði 2-2 jafntefli við Hondúras á heimavelli í undankeppni HM 2018 í nótt.

Derby Carillo og Pablo Punyed voru báðir í byrjunarlið El Salvador en þeir gengu til liðs við ÍBV í vetur. Sá síðarnefndi hefur einnig spilað með Fjölni, Fylki og Stjörnunni hér á landi.

Carillo stóð allan tímann í markinu í nótt og Punyed lék fyrstu 78 mínúturnar á miðjunni og skoraði fyrra mark El Salvador.

Alberto Elis kom Hondúras yfir á 19. mínútu en Punyed jafnaði metin með góðu skoti þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik.

Þetta var annað landsliðsmark Punyeds en hann var einnig á skotskónum í 1-3 tapi fyrir Haítí í vináttulandsleik í fyrra.

Anthony Lozano kom Hondúras aftur yfir á 59. mínútu en Nelson Bonilla tryggði Salvadorum stig þegar hann jafnaði metin mínútu fyrir leikslok.

Punyed, Carillo og félagar eru í 3. sæti A-riðils undankeppninnar með tvö stig eftir þrjá leiki. Tvö efstu liðin fara áfram í úrslitariðilinn.


Tengdar fréttir

Klinsmann í klípu eftir tap fyrir Gvatemala

Það heldur áfram að hitna undir Jürgen Klinsmann, þjálfara bandaríska landsliðsins í fótbolta, eftir að hans menn töpuðu óvænt fyrir Gvatemala, 2-0, á útivelli í undankeppni HM 2018 í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×