Fótbolti

Infantino opinn fyrir því að fyrstu úrslitaliðin haldi HM 2030

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Argentínu og Úrúgvæ í Suður-Ameríkukeppninni í fyrra.
Úr leik Argentínu og Úrúgvæ í Suður-Ameríkukeppninni í fyrra. vísir/getty
Gianni Infantino, nýkjörinn forseti FIFA, er opinn fyrir því að halda HM 2030 í Argentínu og Úrúgvæ.

Löndin tvö hafa sóst eftir því að halda HM 2030 en það ár verða liðin 100 ár frá því mótið fór fyrst fram. HM var þá haldið í Úrugvæ og mættu heimamenn Argentínu í úrslitaleiknum og höfðu betur, 4-2.

Úrúgvæ hefur ekki haldið HM síðan 1930 en Argentína hélt, og vann, mótið 1978.

HM hefur aðeins einu sinni verið haldið í tveimur löndum; árið 2002 þegar mótið fór fram í Japan og Suður-Kóreu.

„FIFA hefur verið mótfallið því að halda HM í fleiri en einu landi en ég styð það,“ sagði Infantino sem var kjörinn forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins fyrir rúmum mánuði.

„Þetta ár [2030] er mjög mikilvægt og við verðum að virða söguna,“ bætti forsetinn við.

Infantino tók við sem forseti FIFA af hinum mjög svo umdeilda Sepp Blatter.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×