Innlent

Lögregluaðgerð lokið í Garði: Hvellir heyrðust þegar verið var að fæla fugla frá skreiðarhjöllum

Birgir Olgeirsson skrifar
Fuglafælan við skreiðarhjallinn.
Fuglafælan við skreiðarhjallinn. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á Suðurnesjum var með mikið viðbúnað á Garðvegi fyrr í dag vegna skothvella sem heyrðust frá fiskihjöllum. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni voru lögreglumenn að störfum á Garðvegi, skammt frá Garði, vegna mannlausrar bifreiðar sem var illa staðsett í vegarkanti. Lögreglumenn urðu þá varir við skothvelli sem virtust koma frá fiskihjöllum þar skammt frá.

Lögreglan segir sérsveit ríkislögreglustjóra hafa verið stadda á æfingarsvæði lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og var óskað eftir aðkomu hennar að málinu. Í ljós kom að um var að ræða hvellbyssur, sem settar höfðu verið upp við fiskihjalla í því skyni að fæla burtu vargfugl.

Uppfært 11:35:

Lögregla hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins:

Lögreglumenn voru í morgun að störfum á Garðvegi, skammt frá Garði, vegna mannlausrar bifreiðar sem var illa staðsett í vegarkanti.  Lögreglumenn urðu þá varir við skothvelli sem virtust koma frá fiskihjöllum þar skammt frá.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var stödd á æfingarsvæði lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og var óskað eftir aðkomu hennar. Í ljós kom að um var að ræða hvellbyssur, sem settar höfðu verið upp við fiskihjallana, í því skyni að fæla burtu vargfugl. 

Lokanir lögreglu á Garðvegi stóðu yfir í um eina klukkustund.



Uppfært 11.05:

Vísir sagði frá því að útgöngubanni hefði verið lýst yfir í leikskólanum og grunnskólanum í Garði. Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum var ákveðið að hleypa börnunum ekki út þegar fregnir bárust af málinu. Jóhann Geirdal, skólastjóri grunnskólans í Garði, segir að ákveðið hafi verið innan skólans að hleypa nemendum ekki út þegar fregnir bárust af málinu en útgöngubanni hafi aldrei verið lýst yfir.

Uppfært 11.01:

Eftir því sem Vísir kemst næst var verið að skjóta af gasbyssum við fiskihjalla í Garði. Eru þær notaðar til að hræða fugla frá skreið sem þar er verið að þurrka.



Uppfært 10:54:

Samkvæmt heimildum er lögregluaðgerðinni lokið og von á tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum innan skamms.



Uppfært 10:49:

Búið er að opna Garðskagaveg frá Helguvík að Garði.

Útgöngubann er í leikskólanum og grunnskólanum Garði vegna þess að byssumaður er talinn ganga laus á svæðinu en hann á að hafa sést við golfskálann í Leiru við Hólmsvöll.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins segir skothvelli hafa heyrst nærri Garði.



Fréttin verður uppfærð eftir því sem málinu framvindur. 


Bíll sérsveitar ríkislögreglustjóra við golfskálann í Leiru við Hólmsvöll. Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×