Enski boltinn

Gylfi: Vil ekki vera með það á ferilsskránni að hafa fallið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson var í áhugaverðu viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem hann segir meðal annars að allt kapp hafi verið sett á að bjarga Swansea frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi Þór hefur verið magnaður eftir áramót og skorað alls sjö mörk fyrir Swansea á árinu 2016. Hann hefur tryggt liðinu mörg dýrmæt stig og er Swansea nú í sextánda sæti deildarinnar, átta stigum frá fallsæti.

Sjá einnig: Samherjar Gylfa Þórs hrósa honum í hástert

Landsliðsmaðurinn segir að hann hafi ekkert velt því fyrir sér hvort hann eigi hins vegar að söðla um og freista þess að koma sér að hjá stærra félagi.

„Það er bara frábært þegar vel gengur en eins og staðan er núna þá vil ég ekki vera með það á ferilsskránni að falla úr úrvalsdeildinni. Nú er bara að enda tíambilið á góðu nótunum og síðan tekur EM við,“ sagði Gylfi við Morgunblaðið.

„Ég er mjög ánægður hjá Swansea og verð vonandi hjá liðinu í úrvalsdeildinni þegar næsta tímabil hefst. Maður veit hins vegar ekkert hvað getur gerst í þessum fótbolta og hlutirnir geta verið fljótir að breytast.“

Sjá einnig: Gylfi getur vel spilað með fjórum bestu liðum Englands

Held með Tottenham

Gylfi á tvö ár eftir af samningi sínum við Swansea en hann kom til liðsins sumarið 2014 eftir tveggja ára dvöl hjá Tottenham, sem er nú í öðru sæti ensku deildarinnar, fimm stigum á eftir spútnikliði og toppliði Leicester.

„Ég var svona að vonast til að þess að félagar mínir í Tottenham myndi taka þetta en ég sé bara ekki Leicester misstíga sig. Maður er búinn að bíða eftir því í tvo mánuði en það gerist ekki. Liðið vinnur bara og vinnur og það er góðs viti að vinna þegar þú spilar ekki vel eins og sást í leiknum þeirra við Newcastle.“

„Ég held með Tottenham í titilbaráttunni en ég sé ekki fyrir mér að Leicester tapi of mörgum stigum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×