Enski boltinn

Tottenham mistókst að komast á toppinn | Sjáðu mörkin og rauða spjaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane og Kyle Walker fagna marki þess fyrrnefnda.
Harry Kane og Kyle Walker fagna marki þess fyrrnefnda. Vísir/Getty
Tottenham mistókst að komast á topp ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Arsenal í nágrannaslag í dag.

Öll helstu atvik leiksins má sjá hér að neðan.

Leicester er því ennþá á toppnum með 57 stig en Refirnir mæta Watford í síðdegisleiknum og geta með sigri náð fimm stiga forystu á Tottenham.

Spurs er í 2. sæti deildarinnar með 55 stig og Arsenal í því þriðja með 52 stig.

Tottenham var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, sérstaklega framan af, en það Aaron Ramsey skoraði eina markið með glæsilegri hælspyrnu eftir sendingu Hectors Bellerín á 39. mínútu. Staðan því 0-1 í hálfleik, Arsenal í vil.

Eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik fékk Francis Coquelin að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Harry Kane.

Skömmu síðar var Kane hársbreidd frá því að jafna metin en David Ospina varði skot hans eftir hornspyrnu. Í endursýningu sást að boltinn var nánast allur kominn inn fyrir línuna.

Pressa heimamanna bar loks á árangur á 60. mínútu þegar Toby Alderweireld jafnaði metin eftir hornspyrnu. Og aðeins tveimur mínútum síðar kom Kane Tottenham yfir með frábæru marki.

Einum færri gáfust Arsenal-menn ekki upp og Alexis Sánchez tryggði þeim stig þegar hann jafnaði metin í 2-2 á 76. mínútu. Þetta var fyrsta mark Sílemannsins í deildinni frá því um miðjan október.

Ramsey fékk kjörið tækifæri til að tryggja Arsenal öll stigin þrjú í uppbótartíma en Austurríkismaðurinn Kevin Wimmer komst fyrir skot hans.

Tottenham 0-1 Arsenal Coquelin fær rauða spjaldið Kane hársbreidd frá því að koma Spurs yfir Tottenham 1-1 Arsenal Tottenham 2-1 Arsenal Tottenham 2-2 Arsenal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×