Listfræðafélag Íslands efnir til hádegisfyrirlestra um Listvinafélagið og efni tengd því í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu, fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði vorið 2016, frá og með 3. febrúar, en þá eru liðin hundrað ár frá því að félagið var stofnað. Fyrirlesarar eru félagsmenn Listfræðafélags Íslands og eru allir velkomnir.
Fyrsti fyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn 3. febrúar klukkan 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu en þá mun Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur greina frá stofnun Listvinafélags Íslands og starfi þess og hlutverki sem vettvangi fyrir myndlist á Íslandi á starfstíma sínum 1916-1932. Myndir frá fyrstu sýningu Listvinafélagsins árið 1919 verða birtar með fyrirlestrinum.
Listvinafélagið lognaðist út af árið 1932 en á starfstíma sínum var það öflugur félagsskapur sem átti mikilvægan þátt í að auka þekkingu og áhuga á myndlist hér á landi og gera myndlist aðgengilega almenningi. Það er því vel við hæfi að minnast 100 ára afmælis félagsins með fyrirlestraröð þar sem fjallað er um íslenska myndlist í húsi sem hýsir sýninguna Sjónarhorn, sem veitir innsýn í íslenskan myndheim fyrr og nú.
Listfræðafélag Íslands, sem stendur á bak við fyrirlestrana, var formlega stofnað í maí árið 2009 af hópi listfræðinga, sýningarstjóra og annarra fagaðila á sviði listfræða á Íslandi. Félagsmenn eru um sextíu.
Hádegisfyrirlestraröð um Listvinafélagið
Sæunn Gísladóttir skrifar
