Enski boltinn

Ætlar að ræða við Klopp um framtíð Balotelli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Balotelli í leik með AC Milan á dögunum.
Balotelli í leik með AC Milan á dögunum. Vísir/Getty
Umboðsmaðurinn skrautlegi, Mino Raiola, vill ekki útiloka að skjólstæðingur sinn, Mario Balotelli, snúi aftur til Liverpool í vor að lokinni ársdvöl hjá AC Milan á láni.

Balotelli sem þykir einn skrautlegasti karakterinn í fótboltaheiminum gekk til liðs við Liverpool frá AC Milan fyrir 16 milljónir punda árið 2014 en honum tókst aldrei að finna sig í herbúðum Liverpool.

Brendan Rodgers, þáverandi knattspyrnustjóri Liverpool, samþykkti í haust að Balotelli færi á árs lánssamning til AC Milan en hann hefur aðeins leikið fjóra leiki í treyju AC Milan og skorað eitt mark.

Þrátt fyrir það telur Raiola að Balotelli gæti snúið aftur til Liverpool en Balotelli lék alls 28 leiki í öllum keppnum og skoraði í þeim fjögur mörk á því ári sem hann var leikmaður Liverpool.

„Ég kannast við Klopp eftir að hafa rætt við hann um Henrikh Mkhitaryan og ég mun ræða við hann um Mario. Hann hefur gæðin til þess að leika með Liverpool en það þarf þjálfara sem hefur trú á honum,“ sagði Raiola og bætti við:

„Undir stjórn Rodgers fékk hann ekki tækifæri til þess að sýna hvað hann gæti en hann þarf einnig að líta í eigin barm og gera betur þegar hann fær tækifæri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×