Innlent

Kona dæmd í þrettán mánaða fangelsi fyrir þjófnað og ítrekuð umferðarlagabrot

Anton Egilsson skrifar
Konan verður í fangelsi í rúmt ár.
Konan verður í fangelsi í rúmt ár. Vísir/Heiða
28 ára kona var dæmd í þrettán mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir fjölmörg brot. Þar að auki var hún svipt ökuréttindum í eitt ár.

Var konan sakfelld annars vegar fyrir þjófnað á fatnaði og snyrtivörum í einni af verslunum Hagkaupa en hins vegar fyrir ítrekuð umferðarlagabrot. Var hún staðinn að því að aka í tvígang undir áhrifum fíkniefna, í tvígang ók hún án gildra ökuréttinda og eitt skipti ók hún án öryggisbeltis. Konan játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.

Rauf skilorð

Konan hefur í gegnum tíðina ítrekað verið fundin sek um þjófnaði, síðast með dómi í febrúar 2015 en þá var henni gert að sæta fangelsi í fimmtán mánuði, þar af tólf mánuði skilorðsbundið í þrjú ár.

Með þeim brotum sem hún var sakfelld fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag rauf hún skilorðsbundna dóminn frá því í febrúar 2015. Taldi því dómurinn í ljósi síendurtekinna brota konunnar ekki þykja efni til að skilorðsbinda þá refsingu sem henni var gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×