Innlent

Vilja að sveitarfélög hafi skýran forkaupsrétt þegar aflaheimildir eru seldar

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga vilja að sveitarfélög hafi skýran forkaupsrétt þegar skip eða aflaheimildir eru seldar út fyrir sveitarfélög. Formaður samtakanna segir það til dæmis vera áhugaverða leið að tengja aflaheimildir við fiskvinnslu en ekki við báta.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, greindi frá því í fréttum Stöðvar 2 á dögunum að þörf væri á breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu á Íslandi. Ljóst er að bæjarfélög á landsbyggðinni standa höllum fæti gagnvart sölu á kvóta líkt og gerðist þegar Hafnarnes seldi kvóta frá Þorlákshöfn til HB Granda.

Við það tækifæri sagði Jón: „Þetta er bara enn og aftur áminning um þann veikleika sem er í kerfinu okkar í dag, að sveitarfélög geta ekki varið aflaheimildir með því að hafa einhvern konar forkaupsrétt að þeim. Við þurfum auðvitað að framkvæma breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.“

Skýr forkaupsréttur, ekki sýndarréttur

Á fundi stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 4. ágúst síðastliðinn var bókað að stjórn samtakanna leggi áherslu á að sveitarfélög hafi skýran forkaupsrétt þegar skip með aflaheimildum, eða hlutir í lögaðila með skip með aflaheimildum, eru seld til aðila með heimilisfesti í öðru sveitarfélagi.

Róbert Ragnarsson, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, segir ljóst er að núgildandi lagaákvæði veita sveitarfélögum litla vörn þegar aflaheimildir eru seldar úr viðkomandi sveitarfélagi.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarfélögin að hafa þennan rétt algerlega virkan, en ekki svona sýndarrétt eins og í núgildandi löggjöf, líkt og hefur sýnt sig undanfarin ár.

Við höfum veitt umsagnir áður og fjallað áður um forkaupsréttarmál. Það var mikil umfjöllun um málið í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum síðan. Þetta mál í Þorlákshöfn er kveikjan að þessari bókun sem við leggjum fram í síðustu viku. Þarna er um að ræða að næstum einn þriðji af aflaheimildunum er seldur úr sveitarfélaginu, ofan á önnur viðskipti sem hafa farið fram á undanförnum árum. Þetta er gríðarlega mikið mál fyrir Þorlákshöfn,“ segir Róbert.

Neyðarúrræði

Stjórnin bendir á að forkaupsréttur hljóti að vera neyðarúrræði þegar miklir samfélags- og atvinnuhagsmunir eru í húfi og ekki megi draga úr sóknarmöguleikum útgerða og byggðarlaga sem vilja sækja aflaheimildir til að byggja upp útgerð á tilteknum stað. Byggðalög með útgerð í vexti þurfi að hafa möguleika til vaxtar.

„Þetta eru gríðarlega miklar fjárfestingar og sveitarfélög tína ekkert þessa peninga upp úr vasanum. Á þeim hvílir líka sú skylda að finna kaupanda inni í sveitarfélaginu strax.“

Sjá má fréttina í heild sinni í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×