Enski boltinn

Valencia og Agüero með tvö þegar West Ham og Man City skildu jöfn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester City komst upp fyrir Arsenal í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við West Ham á Upton Park í kvöld.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Enner Valencia kom Hömrunum yfir strax á upphafsmínútu leiksins en á 9. mínútu jafnaði Sergio Agüero metin úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Joe Hart kom svo í veg fyrir West Ham næði forystunni á nýjan leik þegar hann varði aukaspyrnu Dimitri Payet frábærlega.

Staðan var 1-1 í hálfleik en Valencia kom West Ham aftur yfir á 56. mínútu. Það var svo Agüero sem tryggði City stig þegar hann skoraði sitt annað mark níu mínútum fyrir leikslok.

Cheikhou Kouyaté var reyndar nálægt því að tryggja West Ham stigin þrjú á lokasekúndum leiksins þegar hann skallaði aukaspyrnu Payet í slána.

West Ham vann fyrri leikinn gegn City á útivelli og tók því fjögur stig af lærisveinum Manuel Pellegrini á tímabilinu.

West Ham er í 6. sæti deildarinnar með 36 stig, einu stigi á eftir Manchester United sem er í 5. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×