Enski boltinn

Magnaður endurkomusigur West Ham | Staða Newcastle versnar enn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn West Ham fagna Dimitri Payet sem skoraði sigurmark liðsins gegn Everton.
Leikmenn West Ham fagna Dimitri Payet sem skoraði sigurmark liðsins gegn Everton. Vísir/Getty
Sjö leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham og Arsenal skildu jöfn, 2-2, í fyrsta leik dagsins. Chelsea og Stoke gerðu einnig jafntefli, Manchester City rústaði Aston Villa og Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Swansea gegn Norwich.

West Ham vann ótrúlegan endurkomusigur á Everton á útivelli, 2-3.

Romelu Lukaku kom Everton yfir á 13. mínútu með sínu 18. deildarmarki. Aðeins þremur mínútum síðar urðu heimamenn fyrir áfalli þegar Kevin Mirallas fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Everton virtist eflast við þetta mótlæti og Aaron Lennon kom liðinu í 2-0 á 56. mínútu. Lukaku fékk svo upplagt tækifæri til að ganga frá leiknum en Adrian varði vítaspyrnu hans á 69. mínútu.

Heimamönnum hefndist fyrir þetta því West Ham skoraði þrjú mörk á síðustu 12 mínútum leiksins. Michail Antonio og Diafra Sakho jöfnuðu metin og það var svo Dimitri Payet sem tryggði Hömrunum öll stigin þrjú þegar hann skoraði sigurmarkið á lokamínútunni.

Þetta var þriðji sigur West Ham í röð en liðið er í 5. sæti deildarinnar með 49 stig. Everton er hins vegar með 38 stig í 11. sæti.

Staða Newcastle United versnar enn en lærisveinar Steve McClaren töpuðu 1-3 fyrir nýliðum Bournemouth á heimavelli.

Bournemouth komst yfir með sjálfsmarki Steven Taylor á 28. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik en á 70. mínútu tvöfaldaði Joshua King forystu nýliðanna.

Ayoze Perez hleypti spennu í leikinn þegar hann minnkaði muninn í 1-2 á 80. mínútu en Charlie Daniels gulltryggði sigur Bournemouth með marki í uppbótartíma.

Virgil van Dijk bjargaði stigi fyrir Southampton þegar liðið fékk Sunderland í heimsókn á St. Mary's Stadium í dag.

Fátt markvert gerðist í leiknum fyrr en á 79. mínútu þegar Jose Fonte, fyrirliði Southampton, fékk að líta rauða spjaldið.

Jermain Defoe kom Sunderland í 0-1 sex mínútum síðar og sigurinn virtist í höfn. En Van Dijk var á öðru máli og jafnaði metin með góðu skoti á þriðju mínútu í uppbótartíma og þar við sat.

Úrslit dagsins:

Tottenham 2-2 Arsenal

0-1 Aaron Ramsey (39.), 1-1 Toby Alderweireld (60.), 2-1 Harry Kane (62.), 2-2 Alexis Sánchez (76.).

Rautt spjald: Francis Coquelin, Arsenal (55.).

Chelsea 1-1 Stoke

1-0 Bertrand Traoré (39.), 1-1 Mame Biram Diouf (85.).

Man City 4-0 Aston Villa

1-0 Yaya Touré (48.), 2-0 Sergio Agüero (50.), 3-0 Agüero (60.), 4-0 Raheem Sterling (66.).

Swansea 1-0 Norwich

1-0 Gylfi Þór Sigurðsson (61.).

Everton 2-3 West Ham

1-0 Romelu Lukaku (13.), 2-0 Aaron Lennon (56.), 2-1 Michail Antonio (79.), 2-2 Diafra Sakho (81.), 2-3 Dimitri Payet (90).

Rautt spjald: Kevin Mirallas, Everton (34.).

Newcastle 1-3 Bournemouth

0-1 Steven Taylor, sjálfsmark (28.), 0-2 Joshua King (71.), 1-2 Ayoze Perez (81.), 1-3 Charlie Daniels (90+2).

Southampton 1-1 Sunderland

0-1 Jermain Defoe (85.), 1-1 Virgil van Dijk (90+3).

Rautt spjald: Jose Fonte, Southampton (79.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×