Innlent

Horfa fyrst á klám fimm ára gömul

Birta Björnsdóttir skrifar
Tæplega nítíu og níu prósent drengja í framhaldsskóla hafa skoðað klám og tæplega áttatíu prósent stúlkna. Neyslumynstrið hefur breyst og skoða nú tæpur helmingur drengjanna klám í farsímanum sínum.

 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn sem Ástrós Erla Benediktsdóttir gerði fyrir mastersritgerð sína í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Rannsóknin var gerð á 18 til 20 ára framhaldsskólanemum og var markmiðið að fá yfirsýn yfir kynhegðun, kynheilbrigði og klámáhorf framhaldsskólanema.

„Hugmyndin var að fá yfirsýn yfir þessa hluti hér á landi. Meðal annars til þess að kanna hvort þörf væri á meiri kynfræðslu, bæði í skólum og í samfélaginu öllu,” segir Ástrós Erla.

„Rannsóknin sýndi að klámnotkun er mikil og sama segja sambærilegar rannsóknir. Þetta er því eitthvað sem við þurfum að tala miklu meira um.”

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að marktækt fleiri karlar höfðu séð klám heldur en konur eða 98,9% karla og 72,9% kvenna.

Af þeim höfðu 40% karla horft á klám 2-5 sinnum í viku undanfarinn mánuðinn en einugis 2,3% kvenna. Tæp 54% kvenna og 10% karla sögðust ekki hafa horft á neitt klám undanfarinn mánuð.

„Foreldrar þurfa að kynna sér þetta betur. Meðal annars vegna þess að í rannsókninni minni kom meðal annars fram að þessi ungmenni  höfðu séð klám í fyrsta sinn allt niður í fimm ára gömul. Þetta er rosalega aðgengilegt og því mikilvægt að foreldrar, skólar og samfélagið séu vakandi um þessa hluti,” segir Ástrós.

Í rannsókn Ástrósar kom meðal annars í ljós að 90,6% klámnotenda segjast horfa á það á netinu í tölvunni og 40% í farsímanum sínum.

„Það er auðvitað ekki gott að ungmenni sem hafa ekki prófað sig áfram í kynlífi horfi á klám og beri sig saman við það sem þar er að gerast,“ segir Ástrós Erla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×