Enski boltinn

Ensku félögin ekki eytt meiri pening í janúar í fimm ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Giannelli Umbula var dýrasti leikmaður janúargluggans.
Giannelli Umbula var dýrasti leikmaður janúargluggans. vísir/getty
Félagaskiptaglugganum á Englandi var lokað klukkan 23.00 í gærkvöldi, en á lokametrunum setti Stoke félagsmet með því að borga 18,3 milljónir punda fyrir Giannelli Umbula og Everton náði í Oumar Niasse frá Lokomotiv Moskvu fyrir 13,5 milljónir punda.

Þessi kaup hjálpuðu félögunum 20 í ensku úrvalsdeildinni að komast yfir milljarð punda múrinn, en í fyrsta sinn eyddu liðin ríflega 185 milljörðum íslenskra króna í leikmenn á einu tímabili.

Félögin eyddu 870 milljónum punda í nýja leikmenn síðasta sumar áður en leiktíðin hófst og keyptu svo nýja menn í janúarglugganum fyrir aðrar 175 milljónir.

Ekki hefur meiru verið eytt í leikmenn í janúar í ensku úrvalsdeildinni síðan 2011 þegar eyðslan nam 225 milljónum punda. Erfitt verður að slá það met.

„Það sem er mest áberandi er að félögin í neðri hlutanum eyddu mest að þessu sinni. Nýi sjónvarpssamningurinn dettur inn á næsta tímabili og liðin virðast vera hrædd um að falla. Þess vegna er verið að eyða miklu til að halda sæti sínu í deildinni,“ segir Dan Jones, fjármálasérfræðingur hjá Deloitte, í viðtali við BBC.

Félögin í ensku úrvalsdeildini eyddu miklu meira en kollegar þeirra í hinum stóru deildum Evrópu. Ítölsku liðin voru í öðru sæti, en þau keyptu nýja leikmenn fyrir rétt ríflega 50 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×