Fótbolti

Tjad dregur sig úr keppni | Eiga ekki pening til að ferðast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr landsleik Tjada og Egypta.
Úr landsleik Tjada og Egypta. vísir/getty
Tjad hefur dregið sig úr leik í undankeppni Afríkukeppninnar 2017 í fótbolta vegna fjárskorts.

Tjadar áttu að mæta Tansaníu í Dar es Salaam á morgun en ekkert verður af þeim leik. Það voru einfaldlega ekki til peningar fyrir ferðalaginu.

Í fréttatilkynningu frá tjadneska knattspyrnusambandinu segir að vegna efnahagsástandsins í heiminum sé þröngt í búi hjá því og það hafi áhrif á þátttöku landsliðsins í nokkrum keppnum. Jafnframt er beðist afsökunar á þessu neyðarúrræði.

Tjadar voru búnir að leika þrjá leiki í G-riðli undankeppninnar en þeir töpuðust allir með markatölunni 8-1. Þau úrslit þurrkast nú út. Auk Tjad og Tansaníu eru Egyptaland og Nígería í G-riðlinum.

Leikið er í 13 riðlum í undankeppninni en sigurvegarar þeirra komast í lokakeppnina í Gabon. Þau tvö lið sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna komast einnig í lokakeppnina.

Liðið sem endar í 2. sæti G-riðils kemur þó ekki greina þar sem aðeins þrjú lið eru eftir í honum eftir að Tjad dró sig úr keppni.

Egyptaland er með fjögur stig eftir tvo leiki, tveimur stigum á undan Nígeríu og þremur á undan Tansaníu. Búist er við því að leikur Egypta og Nígeríumanna í Alexandríu á þriðjudaginn ráði miklu um hvort liðið kemst í lokakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×