Fótbolti

Guðlaugur Victor til liðs við Esbjerg

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðlaugur Victor í leik með NEC á sínum tíma.
Guðlaugur Victor í leik með NEC á sínum tíma. Vísir/Getty
Guðlaugur Victor Pálsson, miðjumaðurinn sterki, gekk í dag til liðs við danska félagið Esbjerg eftir eins árs dvöl hjá Helsingborg í Svíþjóð. Þetta kemur fram á bold.dk.

Guðlaugur hefur undanfarna daga verið orðaður frá Helsingborg en samkvæmt dönskum og sænskum miðlum hafði meðal annars Bröndby áhuga á að fá Guðlaug til liðs við sig.

Er talið að Esbjerg greiði Helsingborg fimm milljónir sænskra króna, alls 77 milljónir íslenskra króna, fyrir Guðlaug.

Er þetta fimmta liðið sem Guðlaugur Victor leikur fyrir undanfarin ár en hann hóf atvinnumannaferilinn hjá unglingaliði AGF í Danmörku.

Þaðan fór hann til Liverpool þar sem hann lék með unglingaliði enska stórveldisins. Hefur hann undanfarin ár m.a. leikið með Hibernian, New York Red Bulls, NEC Nijmegen og síðast Helsingborg.

Guðlaugur Victor er ekki í leikmannahóp íslenska landsliðsins að svo stöddu en hann hefur leikið 4 leiki fyrir Íslands hönd.

„Þetta eru blendnar tilfinningar. Mér líður vel að hafa skrifað undir hér en ég naut mín virkilega vel hjá Helsingborg, bæði utan sem og innan vallar. Á endanum ákvað ég að fylgja því sem hjartað mitt sagði mér að gera,“ sagði Guðlaugur við bold.dk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×