Innlent

Var saklaus í haldi spænsku lögreglunnar í þrjá klukkutíma

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir með Sólveigu, kærustu sinni, í Barcelona í gær. Á pappírnum eru réttindi Víðis á meðan hann var í haldi lögreglu útlistuð.
Víðir með Sólveigu, kærustu sinni, í Barcelona í gær. Á pappírnum eru réttindi Víðis á meðan hann var í haldi lögreglu útlistuð. Vísir
Víðir Þór Rúnarsson, 24 ára Íslendingur sem er þessa dagana í fríi í Barcelona, lenti í heldur óskemmtilegri lífsreynslu í borginni síðastliðinn föstudag. Hann var þá handtekinn fyrir meintan þjófnað úr versluninni Primark og færður í fangaklefa þar sem hann mátti dúsa í þrjá tíma áður en honum tókst að sanna sakleysi sitt.

„Ég var með kærustunni minni í verslunarmiðstöð og við vorum búin að fara bæði í Primark og Zöru og kaupa helling af fötum. Ég ákvað að fara heim á undan henni en hún var áfram og ætlaði að versla meira. Ég tók því pokann hennar úr Primark og var svo með minn poka úr Zöru. Það vildi reyndar svo óheppilega til að pokinn úr Primark hafði rifnað þannig að ég fékk nýjan poka undir þau föt í Zöru,“ segir Víðir.

Hann lagði svo af stað út á metróstöð sem var í um tíu mínútna fjarlægð frá verslunarmiðstöðinni. Víðir segir að hann hafi gengið rösklega en þegar hann var rétt ókominn á metróstöðina stoppaði lögreglubíll við hliðina á honum, út úr bílnum stigu tveir lögreglumenn og stoppuðu Víði.

Fjórir vopnaðir lögreglumenn umkringdu hann

„Þeir byrja að tala við mig á spænsku og kíkja í pokana. Þeir spyrja svo hvort að ég sé með kvittun en ég var aðeins með kvittun fyrir því sem ég keypti í Zöru. Það vantaði því kvittunina fyrir því sem kærastan mín keypti í Primark. Þeir halda áfram að spyrja hvar kvittunin er og ég reyni að útskýra fyrir þeim að ég sé ekki með hana en kærastan mín geti hugsanlega verið með hana.“

Víðir segir að lögregluþjónarnir hafi ekki talað mikla ensku og sjálfur tali hann litla spænsku. Það hafi því ekki gengið þrautalaust fyrir sig að skilja hvað gekk á en Víðir segir þó að það hafi verið ljóst að lögreglumennirnir trúðu honum ekki. Þeir hafi verið vissir um að hann hefði stolið fötunum úr Primark.

„Svo koma þarna tveir aðrir lögregluþjónar, karl og kona, til að aðstoða. Þarna eru því komnir fjórir lögreglumenn í kringum mig, allir með byssu og ég var satt best að segja bara orðinn nokkuð hræddur. Lögreglukonan talar samt aðeins meiri ensku en hinir sem stoppuðu mig fyrst. Hún reynir því að spjalla við mig og róa mig og útskýrir síðan fyrir mér að lögreglumennirnir tveir ætli að fara í Primark og fá staðfest að ég hafi keypt fötin.“

Barcelona.vísir/getty
Öryggisvörður í Primark sagði að fötunum hefði verið stolið

Víðir reyndi síðan að útskýra fyrir konunni að það væri engin þjófavörn á fötunum en hún sagði að það væri engin sönnun því það væri aldrei þjófavörn á fötum úr Primark. Það hafi því ekki beint hjálpað.

Þegar lögreglumennirnir komu síðan til baka voru þeir ekki með pokann með Primark-fötunum. Þeir höfðu skilið hann eftir í búðinni því öryggisvörðurinn í versluninni sagði þeim að einhver hefði stolið fötunum. Víðir segir að hann hafi ítrekað reynt að útskýra fyrir þeim að þetta væri misskilningur. Kærastan hans væri hugsanlega með kvittunina fyrir fötunum en lögreglan hafi einfaldlega ekki trúað honum.

„Ég gat síðan ekki hringt í kærustuna mína því ég var ekki búinn að opna fyrir það að hringja úr símanum mínum í útlöndum. Hún hefði heldur ekki getað tekið við símtalinu því hún átti ekki inneign. Ég bað um að fá að senda henni skilaboð á Facebook en ég mátti það ekki. Ég var því bara handjárnaður, settur inn í lögreglubíl og farið með mig upp á stöð. Ég spurði hvort ég fengi ekki að hringja þegar við kæmum þangað en þeir sögðust ætla að hringja fyrir mig.“

Óttuðust að Víðir myndi hengja sig í fangaklefanum

Þegar komið var niður á lögreglustöð fékk Víðir pappíra í hendurnar sem hann átti að fylla út. Þar var hann meðal annars spurður að því hvort hann vildi fá sér lögfræðing en Víðir segir að hann hafi alls ekki verið viss um hvernig hann ætti að fylla pappírana út. Hann hafði til að mynda ekki hugmynd um hvort að kærastan hans væri enn með kvittunina í fórum sínum sem myndi sanna sakleysi hans.

„Ég er síðan settur inn í fangaklefa þarna sem var svona sirka 5 fermetrar að stærð. Þeir tóku allt af mér, símann, úrið, beltið og reimarnar úr skónum mínum. Ég spurði af hverju þeir tækju reimarnar og fékk þær útskýringar að þeir væru að koma í veg fyrir að ég hengdi mig. Í klefanum var síðan ekkert nema smá steypuklumpur sem kom út úr veggnum. Ég gat sest á hann. Ég var ekki búinn að fá að hringja eða láta neinn vita af mér og það sem var langverst við að vera í klefanum var að ég vissi ekki hvort að kærastan mín væri með kvittunina úr Primark.“

Víðir var búinn að vera rúman klukkutíma í fangaklefanum þegar yfirmaður hjá lögreglunni kom inn í klefann. Hann talaði örlitla ensku og sagði Víði að hann yrði að klára að fylla út pappírana.

„Ég fer þá að útskýra fyrir honum að ég viti ekki almennilega hvernig ég eigi að fylla pappírana út því kærastan mín gæti verið með kvittun fyrir kaupunum. Þessi lögreglumaður kom þá alveg af fjöllum og hafði ekki hugmynd um að það gæti verið einhver kvittun í spilinu. Hinir tveir sem handtóku mig höfðu ekki haft fyrir því að segja honum að það væri möguleiki því þeir trúðu mér ekki.“

Blað sem Víðir fékk frá lögreglunni sem staðfestingu á því að hann hefði verið handtekinn fyrir mistök.mynd/víðir
Hafði áhyggjur af því að hann myndi eyða afmælinu í fangaklefa

Þegar hér var komið við sögu reynir lögreglan í fyrsta skipti að hafa samband við kærustu Víðis. Það gekk hins vegar ekki svo lögreglan hringdi í besta vin Víðis sem býr í Barcelona. Hann náði að senda kærustu Víðis Facebook-skilaboð og kom síðan á lögreglustöðina með kærustunni sinni. Kærasta Víðis kom svo á skömmu síðar á lögreglustöðina með kvittunina úr Primark.

„Ég er bara enn í klefanum og þarna eru örugglega liðnir svona þrír tímar frá því að löggan stoppaði mig þarna úti í götu. Þeir höfðu sagt mér að þeir mættu halda mér í þrjá sólarhringa og ég hafði því miklar áhyggjur af því að ég yrði í fangelsi restina af fríinu, þar með talið á afmælinu mínu,“ segir Víðir en hann átti afmæli í gær, laugardag.

Þegar hann loksins losnaði úr prísundinni var hann kallaður inn á skrifstofu með yfirmanninum og lögreglumönnunum tveimur sem handtóku hann. Víðir segir að þeir hafi talað saman á spænsku og hann hafi skilið lítið. Hann skildi þó að yfirmaðurinn hafi verið ósáttur við lögreglumennina og spurt hvers vegna þeir hafi handtekið Víði. Þeir hafi sagt að hann hafi verið að labba hratt og verið grunsamlegur. Síðan kenndu þeim öryggisverðinum í Primark um enda hafi hann sagt þeim að fötunum hafi verið stolið.

Skapaði vesen að vera ekki með vegabréfið

„Lögreglumennirnir fóru síðan með okkur í Primark til að ná í fötin sem kærastan mín hafði keypt. Annar lögreglumaðurinn byrjar bara að skamma öryggisvörðinn sem segir ekki neitt og lítur ekki á mig. Ég hélt kannski að hann og lögreglumennirnir myndu biðjast afsökunar en það var nú ekki,“ segir Víðir.

Aðspurður hvernig honum hafi liðið meðan hann sat í fangaklefanum segir hann:

„Ég var aðallega bara hræddur og stressaður hverjar afleiðingarnar yrðu ef að kærastan mín væri ekki með kvittunina. Ég brýni því fyrir fólki bara að passa upp á kvittanirnar sínar og vera með vegabréfið á sér úti í útlöndum. Ég var ekki með mitt á mér og það skapaði mikið vesen, þeir trúðu mér til dæmis ekkert endilega þegar ég sagði þeim að ég væri frá Íslandi.“

Víðir segir að hann hafi átt erfitt með að sofna um kvöldið en að afmælisdagurinn í gær hafi svo verið yndislegur sem og restin af dvölinni í Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×