Enski boltinn

Allardyce fær að vita örlög sín á mánudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allardyce hefur stýrt West Ham frá árinu 2011.
Allardyce hefur stýrt West Ham frá árinu 2011. vísir/getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Ham United, fær að vita örlög sín hjá félaginu á mánudaginn en þá ætla eigendur og stjórnarmenn West Ham að funda um hvort stjóranum verði boðinn nýr samningur.

Allardyce verður hins vegar ekki á landinu þegar ákvörðunin verður tekinn en hann er á leið í frí til Spánar með barnabörnum sínum eftir leik West Ham og Newcastle United í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

„Framtíð mín hjá félaginu mun koma í ljós á einn eða annan hátt á mánudaginn,“ sagði Allardyce.

„Ég er á leið til Spánar en ég hef falið umboðsmanni mínum að sjá um samningaviðræður fyrir mína hönd.

„Þessi orðrómur hefur kannski haft einhver áhrif á leikmennina miðað við alla stjórana sem eru orðaðir við starfið. Carlo Ancelotti verður eflaust næstur til að vera orðaður við starfið mitt en það er lítið sem ég get gert í því.“

Allardyce er að klára sitt fjórða tímabil sem stjóri West Ham en aðeins einn stjóri, Arsene Wenger hjá Arsenal, hefur verið lengur við stjórnvölinn hjá liði í ensku úrvalsdeildinni.

West Ham spilaði vel fyrir áramót og í byrjun árs 2015 voru Hamrarnir í 7. sæti deildarinnar með 32 stig. Síðan hefur liðið aðeins fengið 15 stig úr 17 leikjum og er dottið niður í 11. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×