Sport

Eygló Ósk Íþróttamaður ársins 2015

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló með verðlaunagripinn.
Eygló með verðlaunagripinn. vísir/daníel rúnarsson

Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Ægi, hlaut í kvöld sæmdarheitið Íþróttamaður ársins þegar niðurstöður kosningar Samtaka íþróttafréttamanna voru tilkynntar við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu. Þetta er í 60. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa Íþróttamann ársins.

Eygló hlýtur þessa viðurkenningu í fyrsta sinn en hún er fimmta konan sem er valinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.

Eygló, sem er tvítug, á frábært ár að baki í sundlauginni. Hún varð fyrst íslenskra íþróttamanna til að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári og fyrsta sundkonan til að vinna verðlaun á stórmóti.

Það gerði hún á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem fór fram í Ísrael í desember er hún vann tvenn bronsverðlaun, í 100 og 200 metra baksundi.

Eygló varð einnig fyrsta íslenska sundkonan, ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur, til að synda til úrslita á heimsmeistaramóti í 50 metra laug en það gerðu þær í Kazan í Rússlandi í ágúst.

Eygló fjórbætti Norðurlandametið í 200 m baksundi á árinu og bætti einnig fjölda Íslandsmeta, auk þess sem hún vann til margra verðlauna á Íslandsmótum og Smáþjóðaleikum.

Gylfi Þór Sigurðsson varð í öðru sæti í kjörinu en hann er lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann sér þátttökurétt á EM í Frakklandi á næsta ári.

Gylfi var einnig í stóru hlutverki hjá velska liðinu Swansea sem náði besta árangri í sögu félagsins þegar það endaði tímabilið í ensku úrvalsdeildinni í vor í áttunda sæti.

Hrafnhildur Lúthersdóttir varð í 3. sæti  kjörinu en auk árangursins á HM í Kazan náði hún Ólympíulágmörkum í fjórum greinum á árinu og var, ásamt Eygló, valin í keppnislið Evrópu fyrir Duel in the Pool sundkeppnina undir lok ársins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.