Innlent

Komast ekki til að leita að konunni sökum veðurs

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björgunarsveitarmaður að störfum í dag
Björgunarsveitarmaður að störfum í dag mynd/flugbjörgunarsveitin hellu
„Þetta er alveg snælduvitlaust helvíti alveg sama hvert litið er,“ segir Svanur Sævar Lárusson hjá aðgerðarstjórn björgunarsveitanna á Suðurlandi. Björgunarsveitir í landshlutanum hafa staðið í ströngu nú síðdegis og í kvöld.

„Snjóbílarnir eru að brasa áfram inn Fljótshlíð en þeir komast ekkert fyrir veðrinu. Það er of hvasst fyrir þá til að halda áfram. Við ætlum að gera tilraun til að fara þangað á vélsleðum í fyrramálið,“ segir Svanur. Snjóbílarnir eru á leiðinni að leita konu sem hugðist ganga á skíðum kringum Mýrdalsjökul.

„Við höfum ekkert heyrt af henni síðan á hádegi á föstudag. Hún er með græju sem átti að senda okkur staðsetningu hennar á tólf tíma fresti en það getur bilað eins og önnur tæki,“ segir Svanur. Konan er með mikla reynslu af útivist og með vistir sem áttu að duga henni fram í næsta mánuð. Einnig er hún með góðan búnað og gott tjald. „Hún hefur það sennilega og vonandi ágætt en við ætlum engu að síður að leita hennar um leið og veður leyfir.“

Ástandið var verst undir Eyjafjöllum þar sem rúður brotnuðu í bílum og bílar fuku á hliðina á svæðinu frá Pétursey að Skógum. Í fyrstu var reynt að senda traktor á staðinn en hann varð frá að hverfa sökum veðurofsans. Hið sama á við um bíla sem sendir voru á staðinn en meðal annars brotnuðu rúður í björgunarsveitarbíl sem var á leið á vettvang. Víða á bæjum hafa rúður brotnað og tilkynnt hefur verið um fok á þakplötum.


Tengdar fréttir

Komast ekki á leitarsvæðið

Á annan tug björgunarsveitarmanna reyna nú að komast að Mýrdalsjökli þar sem leita á að konu sem saknað hefur verið síðan á föstudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.