Innlent

Jón Steinar telur að pólitíkusar eigi að skipa dómara við Hæstarétt

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Steinar er ómyrkur í máli um það sem hann segir ófremdarástand innan Hæstaréttar Íslands.
Jón Steinar er ómyrkur í máli um það sem hann segir ófremdarástand innan Hæstaréttar Íslands.
Brynjar Níelsson þingmaður spurði Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann hvort færa eigi skipunarvald dómara úr höndum stjórnmálamanna, í því skyni að minnka spillingu, á opnum fundi. Svör Jóns Steinars voru afgerandi: Nei!

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður, og fyrrverandi hæstaréttardómari, kom víða við í erindi sem hann flutti 20. maí síðast liðinn, en erindið er nú aðgengilegt á YouTube. Jón Steinar setti fram harða gagnrýni á Hæstarétt, sem lesa má um í nýlegri bók hans Í krafti sannfæringar, og kom inn á atriði svo sem ósamræmi og óvandaða dóma, fjölskyldustemmingu sem Jón Steinar telur ríkjandi meðal dómara við réttinn og svo hreinlega það sem kalla má á mannamáli; skítadíla milli dómara. „Þú getur nú verið mér sammála núna, Jón Steinar. Ég var sammála þér um daginn,“ segir Jón Steinar og spyr hverskonar vitleysa þetta sé eiginlega? Menn verði að geta treyst því að hver maður fái réttláta úrlausn við Hæstarétt.

Brýnasta úrlausnarefni samfélagsins

Ekkert nýtt er að Jón Steinar láti Hæstarétt heyra það en hann hefur til að mynda sakað réttinn um að dæma bara eins og vindarnir blása, og má þá segja að það hrikti í stoðum réttaríkisins, eigi sú gagnrýni við rök að styðjast. Jón Steinar ætti að þekkja til hvernig kaupin gerast á eyrinni.

„Þjóðin, og þá ekki síst þeir sem sitja á Alþingi Íslendinga, verður að skilja að þetta er eitt brýnasta, ég segi brýnasta, verkefnið í þjóðmálunum; að koma Hæstarétti landsins í lag. Þannig að menn þurfi ekki að eiga þaðan von á óvönduðum úrlausnum eins og verið hefur. Ég hef þá bjargföstu trú að ef allt er í lagi á þessari endastöð í réttarkerfinu verði svo margt annað í lagi í samfélaginu líka,“ sagði Jón Steinar í lok síns erindis og ljóst má vera að þetta er honum hjartans mál. Jón Steinar hefur látið í ljósi þá skoðun að honum þyki þetta brýna málefni ekki vera eins ofarlega á baugi og efni standa til.

Óvænt spurning

Í lok erindis var orðið laust og fyrirspurnir leyfðar. Spurning Brynjars Níelssonar alþingismanns, og fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins, hlýtur að vekja athygli en hún er sú hvort Jón Steinar spyr: „Hvaða skoðun hefur þú á því sjónarmiði að færa eigi skipunarvald dómara úr höndum stjórnmálamanna, í því skyni að minnka spillingu?“

Skilja mætti spurningu alþingismannsins svo að hann telji það bjóða spillingunni heima að dómsmálaráðherra skipi dómara eins og verið hefur. Í það minnsta gefur Brynjar boltann upp og Jón Steinar sparkar fast í hann. Þá hlýtur spurning Brynjars einnig að tengjast þeirri umræðu sem var mikil á sínum tíma þegar Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra var (og er) legið á hálsi að hafa komið Jóni Steinari sjálfum inn í hæstarétt sem og Ólafi Berki Þorvaldssyni hæstaréttardómara. Svar Jóns Steinars er afgerandi:

Brynjar gaf boltann upp, með óvæntri spurningu. Jón Steinar tók boltann á lofti og sparkaði fast í hann.
Algjör vitleysa að láta þá sem enga ábyrgð hafa ráða þessu

„Ætli sé ekki bara best að fela ákvarðanir í hendur þeirra sem bera enga ábyrgð á því sem þeir ákveða?“ spurði Jón Steinar fremur háðskur í bragði, á móti. Og hélt svo áfram:

„Auðvitað er þetta bara liður í þessari samfélagsumræðu sem fer oft bara að ganga undir sjálfri sér. Það hlýtur að vera að alþingismenn sem eru kosnir af þjóðinni og bera ábyrgð gagnvart henni, og ráðherrar sem sækja vald sitt með óbeinum hætti til þjóðarinnar í gegnum þingið, beri ábyrgð, augljósa ábyrgð á ákvörðunum sínum um þetta. Frekar heldur en einhver nefnd sem skipuð hefur verið af einhverjum aðilum; tilnefnt af Lögmannafélaginu einn eða eitthvað svona fíneríi sko, að hún sé ónæm fyrir einhverjum svona áhrifum? Af því að það eru ekki pólitíkusar sem skipa hana. Þetta er að mínu mati bara tóm vitleysa. Það er alveg ljóst að þeir sem eru tilnefndir af einhverjum aðilum úti í bæ geta misfarið með vald sitt rétt eins og hinir. Munurinn er bara sá að þeir bera enga ábyrgð á því. Það er einhver nafnlaus ábyrgð. Og það er staðreynd að þjóðin dregur alþingismenn sína frekar til ábyrgðar, þeir eru valdir til þess af þjóðinni og eiga að fara með valdið.“


Tengdar fréttir

Færri dómara og færri mál til að efla réttinn

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari kallar eftir samstöðu um fækkun dómara við Hæstarétt og að færri mál rati þangað vegna álags á réttinn. Hann gagnrýnir harðlega að tími málflutnings hafi verið skorinn niður hjá réttinum.

Segir hóp lögfræðinga stjórna Hæstarétti

„Það sem er að í okkar dómskerfi er að hér eru menn skipaðir í dómarastarf án þess að nokkur viti áður fyrirfram hvaða skoðanir menn hafa á grundvallaratriðum á starfsháttum dómsstóla,“ segir Jón Steinar.

Jón Steinar opnar sig um Hæstarétt

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, varpar spegli í salarkynni Hæstaréttar í nýrri bók sinni. Jón Steinar ræddi um efni bókarinnar í viðtali við Ísland í dag fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×