„Við erum með sýnishorn af vordagskránni okkar,“ segir Símon H. Ívarsson, kórstjóri Kammerkórs Mosfellsbæjar, spurður út í lagavalið á tónleikum kvöldsins í Kjarnanum.
„Ég leyfði kórfélögum að velja lög úr eldri dagskrá kórsins og útkoman varð sú að ástardrama er í hávegum hjá okkur, ljúfir söngvar og mildir, þannig að óhætt er að segja að við séum á rómantískum nótum. Ásdís Arnalds syngur einsöng og Þórhildur Magnúsdóttir leikur með á fiðlu.“
Tónleikarnir hefjast klukkan 20 í kvöld í Kjarnanum, Þverholti 2. Tveir aðrir kórar koma þar fram, Álafosskórinn undir stjórn Ástvalds Traustasonar og Barnakór Mosfellsbæjar, sem Guðmundur Ómar Óskarsson stjórnar.
Flutt verður fjölbreytt kórtónlist frá ýmsum tímum og í lokin syngja kórarnir saman.
Aðgangseyrir er 1.500 krónur, en 1.000 krónur fyrir aldraða og ókeypis fyrir börn.
Kórfélagar völdu rómantísk lög
