Innlent

Transfólki á Íslandi hefur fjölgað verulega

Transfólki á Íslandi hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Sífellt yngra fólk sækist nú eftir kynleiðréttingu og hlutföllin milli fjölda transkvenna og transkarla hafa jafnast. GayIceland greindi fyrst frá.

Óttar Guðmundsson, geðlæknir, fer fyrir hópi sérfræðinga um málefni transfólks á Landspítalanum. Hann segir þessa breytingu, undanfarin þrjú til fimm ár, vera í takt við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. 

„Það er mun auðveldara í dag að koma fram sem transeinstaklingur. Þannig að fólk horfist í augu við þetta og kemur fram, sem það þorði ekki að gera fyrir kannski tíu, tuttugu árum,“ segir Óttar.

Athygli vekur að sífellt yngra fólk kallar eftir því að leiðrétta kyn sitt, en á árum áður var yfirleitt um að ræða einstaklinga yfir þrítugu.

„Það eru semsagt unglingar, eða fólk sem er á barnsaldri, sem horfist í augu við að það sé trans og þurfi að taka afstöðu til þess,“ segir Óttar.

Auk þess stíga sífellt fleiri karlar fram. Fyrir nokkrum árum hafi verið um það bil fjórar konur á móti hverjum karli, en nú eru hlutföll karla og kvenna nokkuð jöfn. Óttar telur að viðhorfsbreyting hafi orðið í samfélaginu undanfarin ár. Fólk sé nú tilbúnara en áður til að samþykkja transkonur - og karla.

„Hvort að það eru jákvæðar fréttir að það sé svona mikil fjölgun í hópnum veit ég ekki. Þetta er óskaplega erfitt ferli. Það er ekki hægt að gera meiri breytingu á sér og sínu lífi heldur en að leiðrétta kyn sitt þannig þetta er afskaplega erfitt fyrir þá sem standa í þessu.  En auðvitað er það jákvætt að samfélagið tekur miklu betur við þessum einstaklingum en áður," segir hann. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.