Novak Djokovic vann Kanadamanninn Milos Raonic 7-6 6-4 og 6-2 í átta manna úrslitum í dag og mætir Svisslendingnum Stan Wawrinka í undanúrslitum. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast síðan Tékkinn Tomás Berdych og Bretinn Andy Murray.
Novak Djokovic hefur unnið alla fimm leiki sína á mótinu án þess að tapa setti sem þýðir að hann er búinn að vinna fimmtán sett í röð. Annars unnust allir leikirnir í átta manna úrslitunum 3-0 í ár.
Novak Djokovic datt út í átta manna úrslitum á opna ástralska mótinu í fyrra en hafði þá unnið mótið þrjú ár í röð. Tapið í átta manna úrslitunum fyrir ári síðan er eina risamótið frá því í júní 2010 þar sem Serbinn hefur ekki verið í fjögurra manna úrslitum.
Novak Djokovic er nú kominn í undanúrslit á 25. risamótinu á ferlinum en vinni hann Stan Wawrinka kemst hann í úrslitaleik risamóts í fimmtánda sinn.
Novak Djokovic og kona hans Jelena Ristić, eignuðust soninn Stefan í október og hún birti mynd á twitter af stráknum að horfa á pabba sinn tryggja sig inn í undanúrslitin. Undir myndinni skrifaði hún: „Áfram pabbi.“
Ajde tatice! Come on daddy! #NoleFam #AusOpen2015 @DjokerNole @AustralianOpen pic.twitter.com/Q3UYGGLYA6
— Jelena Djokovic (@JelenaRisticNDF) January 28, 2015