Sport

Eygló Ósk vann brons á Evrópumótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir vann bronsverðlaun í 100 metra baksundi á öðrum keppnisdegi Evrópumeistaramótsins í 25 metra laug í Netanya í Ísrael.

Eygló Ósk kom í mark á nýju glæsilegu Íslandsmeti og bætti gamla metið sitt um rétt tæpa sekúndu. Þetta er örugglega langbesta sund Eyglóar á ferlinum og ótrúleg mikil bæting hjá henni.

Eygló Ósk synti á 57,42 sekúndum í úrslitasundinu en hún var að synda 100 metra baksundið í fyrsta sinn undir 58 sekúndum.

Ungverjinn Katinka Hosszu kom langfyrst í mark á 55,42 sekúndum en önnur var Pólverjinn Alicja Tchorz á 57,17 sekúndum. Eygló var 22 hundraðshlutum fljótari í markið en Rússinn Daria Ustinova.

Katinka Hosszu setti með þessu nýtt mótsmet en gamla mótsmetið átti Daninn Mie Nielsen sem synti á sínum tíma á 55,99 sekúndum. Það sund hjá Nielsen er enn Norðurlandamet.

Eygló Ósk setti Íslandsmet í undanúrslitunum þegar hún synti á 58,39 sekúndum en hún var 97 hundraðshlutum fljótari í dag.

Eygló Ósk var með sjöunda besta tímann inn í undanúrslitunum og synti hún á fyrstu brautinni.

Eygló var sjötta eftir fyrstu 50 metrana en hún synti seinni hlutann frábærlega og tryggði sér sín fyrstu verðlaun á stórmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×