Innlent

Jói og Gugga edrú í fjögur og hálft ár: „Það er ekki í boði að fara til baka“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jóhann Traustason og Guðbjörg Inga Guðjónsdóttir, betur þekkt sem Jói og Gugga, hafa nú verið edrú í fjögur og hálft ár en þau voru langt leiddir sprautufíklar. Þau tóku morfín á hverjum degi en fréttaskýringarþátturinn Kompás fylgdi þeim eftir árið 2006 og þau urðu landsþekkt í kjölfarið.

Jói og Gugga sögðu frá bataferli sínu í gærkvöldi í sérstökum söfnunarþætti fyrir Samhjálp en þau eiga samtökunum mikið að þakka. Þau voru búin að vera í sjö ár í morfínneyslu áður en þau fóru í meðferð.

„Við vorum alveg á lokastigi en alkóhólismans en svo gáfumst við bara upp. Við gátum ekki meira. Ég vildi bara deyja, ég gat ekki meir,“ sagði Gugga.

Átti ekki mikið eftir árið 2006

Spilað var brot úr Kompás-þættinum þar sem Jói sagði meðal annars að þau vildu ekki vera í neyslu. Þess vegna kæmu þau fram fyrir framan alþjóð.

„Eina sem við þráum er að komast út úr þessu.“

Gugga sagði að henni hafi brugðið dálítið við að sjá innslagið sem tekið var fyrir níu árum.

„Ég veit að ég var alveg svakalega mikið veik, ég átti ekki mikið eftir og ég er svo óendanlega þakklát að sjá þetta og sjá mig svo í dag að þetta skuli hafa tekist.“

Staðir á borð við Hlaðgerðarkot lífsnauðsynlegir

Hún sagðist ekki vera hrædd í dag við að falla. Hún hafi saknað þess mikið fyrstu mánuðina að fá sér en í dag sé staðan önnur.

„Ég ætla ekki á þennan stað aftur. Ég tek meðvitaða ákvörðun hvern einasta dag, ég fer á hnén á hverjum degi og ákveð það að vera edrú.“

Jói sagði það lífsnauðsynlegt að til séu staðir á borð við Hlaðgerðarkot.

 

„Að sitja hér í dag og vera að safna fyrir Samhjálp til að þeirri geti haldið áfram í sinni forvörn og haldið áfram að gefa fólki von, ég held að það sé ekki til neitt sem er jafnfallegt.“

Honum dauðbrá einnig að sjá myndbrotið úr Kompási.

„Það er ekki í boði að fara til baka.“

Horfa má á viðtalið við Jóa og Guggu í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×