Enski boltinn

Memphis svarar fyrir sig: „Ég er liðsmaður“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Memphis Depay hefur ekki fylgt eftir góðri byrjun.
Memphis Depay hefur ekki fylgt eftir góðri byrjun. vísir/getty
Memphis Depay, hollenski framherjinn sem leikur með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, svaraði í gær fyrir gagnrýni hollenska landsliðsþjálfarans Danny Blind sem sagði hann ekki alltaf vera góðan liðsmann.

Memphis byrjaði vel hjá United eftir að vera keyptur til enska risans fyrir 25 milljónir punda í sumar, en glæsilegt mark hans í forkeppni Meistaradeildarinnar gegn Club Brugge sýndi stuðningsmönnum United hvað í honum býr.

Hann var svo í byrjunarliði United í deildinni alveg þar til liðið tapaði, 3-0, fyrir Arsenal á útivelli en síðan þá hefur hann aðeins byrjað einn leik fyrir United. Það var í deildabikartapi gegn Middlesbrough.

Markið flotta gegn Club Brugge:


Memphis var ekki valinn í hollenska landsliðið fyrir æfingaleikina sem verða háðir á næstu dögum, en Danny Blind, landsliðsþjálfari Hollands, sagði hann ekki alltaf vera hluta af liðinu.

„Ég er liðsmaður,“ segir Memphis. „Ég held að liðsfélagar mínir telji mig vera það líka. Ég er ekki á slæmri leið eins og fjölmiðlarnir vilja meina. Ég er bara ekki að spila vel.“

„Ég held áfram að leggja mikið á mig. Þó ég sé ekki að spila jafn vel og ég sýndi á HM í fyrra þýðir það ekki að ég leggi ekki jafn mikið á mig.“

„Mér líður vel núna. Aðrir sjá hvað ég geri á æfingum þannig þó fólk haldi að ég einbeiti mér ekki að fótboltanum þá er það ekki satt,“ segir Memphis Depay.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×