Enski boltinn

Fabregas var nálægt því að ganga í raðir Real Madrid

Anton Ingi Leifsson skrifar
Allt er gott á milli okkar, segir Fabregas.
Allt er gott á milli okkar, segir Fabregas. vísir/getty
Cesc Fabregas, miðjumaður Chelsea, hefur opinberað það að hann hafi átt í viðræðum við Real Madrid fyrir nokkrum árum síðum þegar hann var á mála hjá Arsenal.

„Það voru einhverjar samningaviðræður yfir nokkura ára skeið og við mismunandi forseta. Samkomulag náðist aldrei. Það vantaði lokaskrefið," sagði Fabregas aðspurður um hvort hann hafi einhvern tímann verið nálægt því að ganag í raðir Real Madrid.

Fabregas spilaði með Spáni gegn Englandi á föstudag þar sem hann lagði upp mark fyrir Mario Gaspar sem var stórkostlegt. Fabregas vippaði þá boltanum á Gaspar sem klippti hann skemmtilega í netið, en lokatölur urðu 2-0 sigur Spánverja.

Það hefur ekki gengið né rekið hjá Chelsea á tímabilinu. Þeir eru þremur stigum frá fallsæti eftir tólf leiki eftir að hafa orðið meistarar á síðasta tímabili.

„Þetta hefur verið erfitt. Síðasta tímabil var frábært, ef við horfum framhjá Meistaradeildinni. Við unnum ensku úrvalsdeildina og enska deildarbikarinn sem ég hafði aldrei unnið áður. Þetta var stórbrotið ár."

„Í ár eru hlutirnir ekki að detat fyrir okkur og úrslitin gefa ekki rétta mynd af hvernig við erum að spila. Við erum að spila betur, en það er enginn heppni. Við verðum að byrja að vinna núna."

Mikið hefur verið rætt um Jose Mourinho, stjóra Chelsea. Enskir fjölmiðlar fullyrtu á dögunum að það væri stirt milli Fabregas og Mourinho, en Spánverjinn segir það kjaftæði.

„Samband okkar Mourinho er fínt, fínt. Auðvitað þegar þú ert ekki að vinna þá segir fólk hluti og þegar þú vinnur, allt er magnað. Þegar þú ert ekki að vinna þá verður allt erfiðara, en við verðum að standa saman með stuðningsmönnunum og stjóranum."

„Það er eini hluturinn sem getur drifið okkur áfram. Enginn er að fara hjálpa okkur. Í Meistaradeildinni getum við sært stórliðin, en núna þurfum við að vakna til lífsins í úrvalsdeildinni. Núna!" sagði Fabregas að lokum.


Tengdar fréttir

Sér eftir því að hafa farið til Chelsea

Pedro yfirgaf Barcelona í haust og vildi frekar semja við Chelsea heldur en Manchester United. Nú sér kappinn eftir öllu saman enda hefur tími hans hjá Chelsea breyst í hálfgerða martröð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×