Innlent

Hagskælingar safna fyrir góðum málefnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Í dag var haldinn árlegur góðgerðardagur Hagaskóla þar sem nemendur skólans koma saman og keppast við að safna pening fyrir góðgerðarsamtök.

Venjan er að styrkja eitt erlent og eitt innlent málefni. Í ár var ákveðið að styrkja sýrlenska flóttamenn sem koma til Íslands og samtökin Útmeða, stuðningshóp sem fyrirbyggir sjálfsvíg ungmenna.

Jón Daði Böðvarsson gaf landsliðstreyju sína.
Er þetta í sjöunda skipti sem góðgerðardagurinn er haldinn en undanfarin ár hafa nemendur skólans meðal annars selt kökur og kandífloss og haft happdrætti. Þá er orðin hefð að útbúa heljarinnar draugahús í kjallara skólans og nýtur það jafnan mikilla vinsælda.

Í fyrra söfnuðust 2,2 milljónir sem runnu til Krabbameinsdeildar Landsspítalans og til barna á Gaza-svæðinu.

Þá var treyja knattspyrnukappans Gylfa Sigurðssonar úr Hollandsleiknum í fyrrahaust til sölu en í ár gaf landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson landsliðstreyju sína úr Tékkaleiknum í sumar til söfnunarinnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir var í beinni útsendingu frá Hagaskóla í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld. Þar sögðu tveir skipuleggjenda, þær Sigríður Birna Valsdóttir og Auður Mist Halldórsdóttir, henni frá góðgerðardeginum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×