Innlent

Forstjóri Landspítalans segir málatilbúnað ákæruvaldsins skaðlegan

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Mynd/Landspítalinn

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir það hafa reynst honum og öðru starfsfólki spítalans þungbært að sjá samstarfskonu þeirra dregna fyrir dóm í vikunni, ákærða fyrir manndráp af gáleysi.  Hann segir málatilbúnað ríkissaksóknara skaðlegan starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna.

„Spítalinn sjálfur er vissulega fyrir dómi vegna málsins en þessi málatilbúnaður ákæruvaldsins gagnvart einstaklingi, þegar ljóst er að ekki er um ásetningsbrot að ræða, er beinlínis skaðlegur enda skapar hann óvissu um störf og starfsumhverfi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna,“ segir Páll í forstjórapistli á vefsíðu Landspítalans.

Hann segir að spítalinn hafi að jafnaði tilkynnt á milli sex og tíu alvarleg atvik árlega til Landlæknis, og nokkur þeirra til lögreglu, enda beri honum skylda til þess lögum samkvæmt. Nauðsynlegt sé að til sé farvegur til að rannsaka alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, bæði innan stofnunarinnar og hjá óháðum ytri aðilum. „Gríðarlegir hagsmunir felast í því að slík ferli leiði til umbóta og hvetji til opinnar öryggismenningar. Þetta ætti að vera augljóst enda þessi háttur hafður á rannsóknum samgönguslysa,“ segir Páll.

Þá segir hann öruggan spítala eitt gilda Landspítala og að unnið hafi verið markvisst að því undanfarin ár að auka öryggi sjúklinga með opinni öryggismenningu þar sem umræða, markviss skráning atvika og úrvinnsla þeirra sé einn lykil þátta.  „Á slíkri skráningu byggir möguleiki okkar til að fyrirbyggja að sambærileg atvik geti átt sér stað í framtíðinni. Í opinni öryggismenningu eiga heilbrigðisstarfsmenn að vera óhræddir við að skrá og upplýsa það sem aflaga fer og allt sem dregur úr vilja þeirra eða getu til þess er afturför.“


Tengdar fréttir

Var í taugaáfalli við yfirheyrslu

Hjúkrunarfræðingur sem er ákærður fyrir manndráp hafði hlaupið á milli margra deilda og gefist lítill tími til að sinna sjúklingi sem lést. Sjálfsásakanir hafi valdið því að hún neitaði ekki sök í fyrstu skýrslutöku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×