Enski boltinn

Fyrsti sigur Klopp hjá Liverpool | City og Southampton áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jürgen Klopp fagnaði í kvöld sínum fyrsta sigri sem knattspyrnustjóri Liverpool er hans menn höfðu betur gegn Bournemouth í 16-liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar á Anfield.

Nathaniel Clyne skoraði eina mark leiksins á 17. mínútu er hann fylgdi eftir glæsilegri hælspyrnu Joao Carlos Teixeira sem var varin á marklínu.

Bournemouth fékk sín bestu færi í byrjun og lok leiks en í bæði skiptin varði Adam Bogdan vel í marki Liverpool.

Manchester City komst svo í 8-liða úrslitin með öruggum 5-1 sigri á Crystal Palace. Wilfried Bony, Kevin de Bruyne, Kelechi Iheanacho og Yaya Toure úr vítaspyrnu skoruðu fyrstu fjögur mörk City en Damien Delaney klóraði í bakkann fyrir Crystal Palace á 89. mínútu. Manue Garcia bætti svo fimmta markinu við í uppbótartíma.

Þá hafði Southampton betur gegn Aston Villa, 2-1. Maya Yoshida og Graziano Pelle komu Southampton yfir eftir markalausan fyrri hálfleik en Scott Sinclair minnkaði muninn fyrir Aston Villa með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Mark Nathaniel Clyne á á 17. mínútu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×