Enski boltinn

Monk ekki áhyggjufullur: Lentum líka í svona á síðasta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garry Monk og Mark Hughes á hliðarlínunni í kvöld.
Garry Monk og Mark Hughes á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Getty
Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea City, horfði upp á lið sitt tapa 1-0 á heimavelli á móti Stoke í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Swansea liðið hefur nú spilað fimm leiki í röð án þess að vinna og uppskeran í síðustu fimm leikjum eru aðeins tvö stig.

„Ég vissi að þeir kæmu og myndu beita skyndisóknabolta. Við máttum því ekki fá á okkur fyrsta markið og eftir að þeir náðu því þá voru þeir alltaf að fara að verjast mjög aftarlega," sagði Monk við Sky Sports eftir leikinn.

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði á bekknum og kom ekki inná fyrr en á 58. mínútu leiksins. Hann átti mjög gott skot rétt framhjá rúmum tíu mínútum síðar.

„Það gekk illa hjá okkur að opna þá. Nú er kominn mánuður hjá okkur þar sem við höfum verið í slíkum vandræðum. Það eru mjög góðir leikmenn í liðinu og við þurfum að koma þeim aftur upp á sinn stall. Ég hef mikla trú á þessum hóp," sagði Monk.

„Einu færin sem þeir fengu komu eftir mistök okkar. Við vorum mun meira með boltann í seinni hálfleiknum en þeir duttu með alla leikmenn sína niður á vítateiginn. Við áttum eitt stig skilið," sagði Monk.

Swansea vann síðast sigur á móti Manchester United 30. ágúst síðastliðinn en frá þeim tíma hefur liðið gert jafntefli við Everton og Tottenham og síðan tapað á móti Watford, Southhampton og Stoke.

„Við fórum líka í gegnum fimm leiki í fyrra án þess að vinna. Ég hef ekki áhyggjur við komust í gegnum þetta," sagði Monk.


Tengdar fréttir

Monk setti Gylfa á bekkinn og Swansea tapaði á heimavelli

Garry Monk var með íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson á varamannabekknum þegar Swansea City tapaði 1-0 á heimavelli á móti Stoke í lokaleik níundu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Gylfi á bekknum í fyrsta sinn á tímabilinu

Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea City, tók þá ákvörðun að taka íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson út úr liðinu fyrir leik liðsins á móti Stoke í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×