Innlent

Linda P biðlar til dýravina á Alþingi

Jakob Bjarnar skrifar
Linda með hunda sína í fjörunni úti á Álftanesi. Það sem varð til að hrinda atburðarásinni af stað var nöturleg frétt af tík sem bundin var við staur í Reykjavík tímunum saman.
Linda með hunda sína í fjörunni úti á Álftanesi. Það sem varð til að hrinda atburðarásinni af stað var nöturleg frétt af tík sem bundin var við staur í Reykjavík tímunum saman.
Linda Pétursdóttir athafnakona stefnir nú á Alþingi með bænaskjal, undirskriftalista þar sem biðlað verður til Alþingis að það beiti sér fyrir opnun dýraathvarf. Linda er sannfærð um að á Alþingi sé að finna dýravini sem verði við þessari bón sinni og þeirra fjölmörgu sem skora á hann, og Alþingi að koma á fót dýraathvarfi: „Opnum dýraathvarf á Íslandi“ er yfirskrift undirskriftasöfnunarinnar. En þar er vakin athygli á því að í lögum um velferð dýra sé heimilt að aflífa dýr innan skamms tíma finnist eigendur dýranna ekki eða nýtt heimili. Þessu vill Linda breyta. Alþingi þarf að koma að málum og stuðla að opnun dýraathvarfs og rekstri þess.

Árni Stefán dýralögfræðingur stendur jafnframt fyrir undirskriftasöfnuninni.
Linda er sannkallaður dýravinur og hún hefur staðið fyrir undirskrifasöfnun á netinu. „Já, við erum að detta í fimmtán hundruð. Það er lokaútkall og þegar þessu marki er náð munum við Árni Stefán Árnason dýraverndunarlögfræðingur fara með bréfið til forseta Alþingis,“ segir Linda í samtali við Vísi. Hún gerir ráð fyrir því að Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, muni taka henni og erindinu vel.

Skelfileg meðferð búfjár

Linda segir að það sem hafi verið dropinn sem fyllti mælinn og varð til þess að þau hófu undirskrifasöfnunina hafi verið nöturleg frétt um tík nokkra. „Já, ætli það hafi ekki ýtt okkur af stað þegar við sáum frétt um tík sem skilin var eftir bundin við staur klukkustundum saman í Reykjavík.“

Spurð hvort almennt sé farið illa með dýr á Íslandi eða hvort tilteknar tegundir sæti sérlega illri meðferð segir Linda að almennt sé ekki illa farið með gæludýr hér á landi. „En augljóslega er farið illa með sumar tegundir búfjár,“ segir Linda og vísar í nýlegar fréttir, svo sem af svínum og kjúklingum. „Svo virðist sem sumar búfjártegundir sæti mjög illri meðferð og er það algjör hryllingur. Gæludýr sæta almennt góðri meðferð þótt eflaust megi bæta ýmislegt þar.“

Telur forsetann til dýravina

Linda segist hafa verið dýravinur allt frá barnæsku. „Já, eða allt frá því þegar ég byrjaði að fara í hesthúsið hjá frænda mínum á Húsavík sjö eða átta ára gömul. Auk þess geri ég þetta af skyldurækni við máleysingjana, af samviskuástæðum og vegna lífsgilda minna.“

Ólafur Ragnar á þýskan fjárhund. Linda hefur hitt hann og telur forsetann tvímælalaust til hóps dýravina.
Þó áskoruninni sé beint að Alþingi þá telur Linda ekki úr vegi, aðspurð, að ætla að sjálfur forsetinn komi að málum. „Ég veit reyndar ekki til þess að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið beðinn um að beita sér. En, hann á að minnsta kosti einn þýskan fjárhund og er umhverfisverndarsinnaður. Í því felst sjálfkrafa að vera dýravinur.

Við hittumst nýverið og þá ræddum við meðal annars um hundana okkar og þær mörgu góðu gönguleiðir sem eru hér í náttúrunni á Álftanesi, þannig að já, ég tel hann vera sannan dýravin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×