Innlent

Stígamót vekja athygli á aukinni þjónustu fyrir karlkyns brotaþola kynferðisofbeldis

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Netspjallið er að finna á forsíðu heimasíðu samtakanna.
Netspjallið er að finna á forsíðu heimasíðu samtakanna. vísir/daníel
Hjálmar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, verður á vaktinni alla mánudaga á netspjalli Stígamóta frá kl. 13:00-18:00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stígamótum.

Á hverju ári koma um 50-100 karlar í viðtöl hjá Stígamótum vegna kynferðisofbeldis sem þeir urðu fyrir í æsku eða á fullorðinsárum. Það er Stígamótum mikilvægt að karlkyns brotaþolar upplifi sig velkomna og að öllum sé ljóst að karlar og strákar geti orðið fyrir kynferðisofbeldi. Karlar leita sér síður hjálpar vegna afleiðinga kynferðisofbeldis en konur og margir hafa aldrei rætt þessi mál.

Samtökin telja að þetta skýrist ekki síst af samfélagslegum skilaboðum til karla um að þeir eigi að harka af sér, vera sterkir og standa sig. Það hefur hins vegar sýnt sig að þegar karlar leita sér hjálpar hjá Stígamótum þá verða þeir ánægðari með sjálfa sig, komast í betra tilfinningalegt jafnvægi og eiga betri tengsl við maka, börn og fjölskyldu. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru ekki síður alvarlegar fyrir karla og þeir eru hjartanlega velkomnir á Stígamót.

Karlar eru boðnir sérstaklega velkomnir í netspjallið. Það er einfalt og öruggt í notkun, fullum trúnaði er heitið og ekki þarf að koma fram undir nafni. Í gegnum netspjallið er hægt að ræða við ráðgjafa um næstu skref og fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði hjá Stígamótum. Netspjallið er að finna á forsíðu heimasíðu samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×