Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - Breiðablik 0-2 | Enn héldu Blikar hreinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Fjölnisvelli skrifar
Fjölnir getur náð fjórða sæti.
Fjölnir getur náð fjórða sæti. vísir/vilhelm
Gunnleifur Gunnleifsson og Blikavörnin hélt hreinu í enn eitt skiptið í sumar er Blikar unnu 2-0 sigur á Fjölni með mörkum Jonathan Glenn, sem fékk að líta beint rautt spjald síðar í leiknum, og Andra Rafns Yeoman í blálokin.

Glenn skoraði gegn gangi leiksins í fyrri hálfleik en fékk svo rautt fyrir að slá til Jonatan Neftali í síðari hálfleik. Glenn endaði því með tólf mörk í sumar og fær silfurskóinn. Honum vantaði eitt mark til að tryggja sér gullskóinn.

Fjölnir féll niður í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar þar sem Stjarnan vann Val í dag. Þar með mistókst Fjölnismönnum að bæta sinn besta árangur í efstu deild frá upphafi.

Gunnleifur jafnaði met með því að halda hreinu í dag en það er í þrettánda sinn sem það gerist hjá Breiðabliki í sumar. Um metjöfnun er að ræða í efstu deild í knattspyrnu á Íslandi. Gunnleifur fékk aðeins á sig þrettán mörk í allt sumar og stórbætti gamla metið í tólf liða efstu deild, sem var sautján mörk.

Fyrir leikinn lá ljóst fyrir að Breiðablik yrði í öðru sæti deildarinnar en liðið endar mótið með 46 stig, tveimur fleiri stigum en þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2010. Um félagsmet er að ræða hjá Breiðabliki.

Fyrri hálfleikur var ágætlega fjörlegur en sóknartilburðir Fjölnismanna afmörkuðust þó við skot utan teigs, sem annað hvort hittu ekki markið eða ollu Gunnleifi Gunnleifssyni ekki vandræðum.

Eftir nokkuð stífa sóknarlotu Fjölnismanna komust Blikar skyndilega yfir á 20. mínútu leiksins. Glenn afgreiddi þá fyrirgjöf Atla Sigurjónssonar með laglegum hætti í netið.

Blikar fengu nokkur ágæt færi eftir þetta en Steinar Örn Gunnarsson stóð vaktina vel í marki heimamanna. Varnarlína Breiðabliks stóð sína plikt sömuleiðis vel og sá til þess að Gunnleifur Gunnleifsson hélt enn einu sinni hreinu í fyrri hálfleik í sumar.

Fjölnismönnum gekk ágætlega að stjórna leiknum framan af í seinni hálfleik en þrátt fyrir að þeir hafi komist aðeins nær markinu en í þeim fyrri gekk þeim illa að skapa almennilega hættu við mark Blikanna. Vörn gestanna með Gunnleif í markinu var einfaldlega of sterk, eins og svo oft áður í sumar.

Það dró þó til tíðinda þegar tæpar 20 mínútur voru eftir af leiknum er Jonathan Glenn fékk beint rautt spjald fyrir að slá til Jonatan Neftali, varnarmanns Fjölnis, eftir að sá síðarnefndi braut á Glenn.

Fjölnismönnum tókst ekki að færa sér liðsmuninn í nyt og Blikar stráðu salt í sár heimamanna þegar Andri Rafn, af öllum mönnum, skoraði eftir skyndisókn Breiðabliks. Fjölnismenn höfðu þá sett flesta sína menn fram til að reyna að ná jöfnunarmarkinu.

Leikurinn í dag var sigur Blikavarnarinnar fyrst og fremst sem og Gunnleifs í markinu. Þóri Guðjónssyni var algjörlega haldið í skefjum og kantmennirnir Aron og Chopart komust lítið áleiðis.

Að sama skapi var lítill kraftur í sóknarleik Blika í dag en Glenn gerði þó vel í markinu og sýndi enn og aftur að hann þarf ekki mikið til að skora mörkin sín.

Fjölnismenn töpuðu síðustu tveimur leikjum tímabilsins fyrir efstu tveimur liðum deildarinnar og svekkjandi niðurstaða fyrir þá að þegar á hólminn var komið hafi aðeins eitt stig vantað upp á að koma liðinu upp í fjórða sæti.

En ef Grafarvogsbúum tekst að byggja á sama grunni í leikmannahópnum fyrir næsta tímabil er engin ástæða til að ætlast annars en að liðið haldi áfram á þeirri góðu vegferð sem liðið hefur verið á stóran hluta sumars.

Blikar halda sáttir í veturinn eftir að hafa sætt sig við vonbrigðin að hafa misst af titlinum. Arnar Grétarsson, þjálfari Blika, náði frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili og þó svo að hann gæti misst lykilmenn í atvinnumennsku er ekki von á öðru en að Blikar verði aftur í titilbaráttu á næsta tímabili.

Glenn: Hann togaði í eyrað á mér

Jonathan Glenn missti af gullskónum í dag en hann skoraði annað marka Breiðabliks í 2-0 sigri á Fjölni í Pepsi-deild karla í dag. Honum vantaði eitt mark upp á til að ná gullskónum af Valsmanninum Patrick Pedersen en var rekinn af velli um miðjan síðari hálfleik.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn og hvernig við stóðum okkur í deildinni,“ sagði Glenn hógvær með silfurskóinn í hendi. „Þegar ég kom hingað var markmið okkar að komast í Evrópukeppni og berjast um titilinn. Það tókst og við vorum óheppnir að ná ekki titlinum líka.“

Hann segir að það hafi gengið virkilega vel að skipta um lið á miðju tímabili en hann kom frá ÍBV til Breiðabliks í júlíglugganum.

„Það gekk virkilega vel fyrir sig. Breiðablik tók mjög vel á móti mér og er með frábæran hóp leikmanna og stuðningsmanna. Ég er mjög ánægður með hvernig það gekk allt saman.“

„Ég set alltaf pressu á mig að skora, enda er á inni á vellinum til að skora. Það er gott að vita að öll vinnan sem maður hefur lagt á sig er að borga sig,“ sagði hann.

Glenn fékk að líta rauða spjaldið í dag fyrir að slá til Jonatan Neftali, varnarmann Fjölnis. Neftali hafði brotið á Glenn og beygði sig yfir hann áður en Glenn sveiflaði höndinni að honum.

„Ég fór niður og hann kom að mér og togaði ítrekað í eyrað á mér. Ég sveiflaði höndinni til að koma honum í burtu frá mér en það var það eina sem dómarinn sá. Ég hefði ekki átt að bregðast svona við en þetta var afar pirrandi.“

Óvíst er hvort að Glenn verði áfram í Breiðabliki og á Íslandi. „Hver veit hvað framtíðin beri í skauti sér. Ég er opinn fyrir öllu - líka að spila á Íslandi.“

Gunnleifur: Líklega mitt besta tímabil

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, fékk aðeins þrettán mörk á sig í allt sumar og bætti þar með met í efstu deild. Blikar héldu hreinu í alls tólf leikjum í sumar en þeir kláruðu tímabilið með 2-0 sigri á Fjölni í dag.

„Ég er virkilega stoltur af þessu. Það er auðvitað ekkert gaman að þurfa að sætta sig við silfrið en árangurinn hjá okkur er samt frábær. Við töpum tveimur keppnisleikjum í sumar fyrir utan bikarinn þar sem við töpuðum í framlengingu. Varnarleikur alls liðsins hefur verið til fyrirmyndar,“ sagði Gunnleifur sem er strax byrjaður að hugsa um næsta tímabil.

„Við ætlum okkur meira. Það er ekki nokkur spurning. Við þurfum því að spýta aðeins í fyrir næsta sumar,“ sagði hann.

Gunnleifur segir að hann hafi snemma gert sér grein fyrir því að hann væri með sterka vörn fyrir framan sig.

„Þegar þjálfararnir tóku við var varnarleikurinn tekinn föstum höndum og mikill metnaður settur í starfið. Það smitaði út frá sér. Menn lögðu mikla vinnu á sig og æfingarnar voru eftir því. Þegar allir fylgja með þá skilar það oftast góðum úrslitum.“

Gunnleifur fékk aðeins þrettán mörk á sig í allt sumar og segist hann afar stoltur af því. Það er met í tólf liða efstu deild.

„Ég er mjög stoltur þó ég segi sjálfur frá. Ég er ánægður með mitt tímabil. Ég gæti trúað því að það væri mitt besta, að minnsta kosti tölfræðilega. Ég er stoltur af mér og ánægður með strákana alla.“

Hann segist ekkert hafa verið að hugsa um að bæta upp fyrir sumarið í fyrra, sem gekk ekki jafn vel og í ár. „Ég vildi bara bæta mig og gera betur. Það var það eina sem ég hugsaði um og mér tókst það.“

Gunnleifur, sem varð fertugur í sumar, grínast enn með að hann stefni út í atvinnumennsku en líklegt er að hann missi lykilmenn úr sinni varnarlínu í sterkari deildir.

„Ég hef ekki áhyggjur af því ef varnarlínan breytist. Eðlilega eru lið að kíkja á strákana okkar og sjálfsagt breytist hún - kannski til hins betra, hver veit?“

Ágúst: Er hundsvekktur með niðurstöðuna

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, segir að það sé svekkjandi að hans mönnum hafi ekki tekist að ná í að minnsta kosti stig gegn Breiðabliki í dag.

„Það var ekki mikið af færum í dag en við áttum fullt af skotum. Þetta var því bara léleg nýting hjá okkur. Blikarnir fá mikið af færum á sig og áttu frábært tímabil en mér fannst að við áttum meira skilið í dag,“ sagði Ágúst.

Hann segir að það hafi ekki verið lagt upp með að skjóta mikið utan teigs og að það hafi verið meiri áhersla lögð á að koma boltanum inn í teig í þeim síðari.

„Við náðum því ekki og þó svo að við fengum nokkur færi undir lokin gekk ekki nógu vel að skapa hættu. Menn voru þreyttir og gátu ekki tekið þetta eina litla skref í viðbót sem þurfti til.“

Hann viðurkennir að það verði erfitt að halda mönnum eins og Bergsveini Ólafssyni og Kennie Chopart.

„Það er spurning hvernig Fjölnishjartað slær. Við tökum á því bara. Nú erum við komnir í kærkomið frí eftir langt tímabil. Við þurfum að finna góða menn og halda því sem er fyrir.“

Fjölnir stefndi að því að bæta sinn besta árangur í efstu deild en endaði með að jafna hann. Fjölnir hafnaði í sjötta sæti en hefði þurft stig til að komast upp í fjórða sætið.

„Það er það fúlasta við þetta allt saman. Það er mjög fúlt. Það munar töluverðu á að taka fjórða eða sjötta sætið og ég er hundsvekktur með niðurstöðuna.“

Ágúst sagði það frágengið að hann muni halda áfram að þjálfa lið Fjölnis á næsta tímabili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×