Innlent

Vilja að Ólafur Ragnar komi til bjargar Ali al-Nimr

Jakob Bjarnar skrifar
Hrafn skorar á forseta Íslands að beita sér í máli Ali al-Nimr og nota sín sambönd í Sádi-Arabíu.
Hrafn skorar á forseta Íslands að beita sér í máli Ali al-Nimr og nota sín sambönd í Sádi-Arabíu.
Hrafn Jökulsson rithöfundur hefur sett af stað undirskriftasöfnun á netinu, þar sem skorað er á forseta Íslands að beita sér í máli Ali al-Nimr. Undirskriftir hrannast inn og eru þegar komnar uppí fimm hundruð, nú skömmu eftir að söfnunin hófst.

Eins og segir á vefsíðunni var Ali al-Nimr var 17 ára þegar hann var handtekinn í Sádi Arabíu 2012 fyrir að mótmæla kúgun stjórnvalda. Hann hefur verið dæmdur til dauða og verður hálshöggvinn og krossfestur. 

„Við undirrituð mótmælum þessari svívirðingu og endurteknum mannréttindabrotum Sádi Arabíu. Sem forseti Íslands hefur þú, Ólafur Ragnar Grímsson, einstakan aðgang að ráðamönnum Sádi Arabíu. Við felum þér að koma á framfæri andstyggð okkar og hryggð vegna þessa ömurlega athæfis konungsstjórnar Sáda, og biðja unga manninum griða.“

Vongóður um að Ólafur Ragnar svari kallinu

Hrafn segist, í samtali við Vísi, vongóður um að Ólafur Ragnar svari kallinu.

„Að sjálfsögðu. Allir réttsýnir menn hljóta að bregðast við svo hryllilegum fréttum. Margir ráðamenn hafa þegar beðið unga manninum griða. Ólafur Ragnar er sem þjóðhöfðingi í aðstöðu til að biðla til konungs Sádí-Arabíu, sem á lokaorðið um hvort Ali verður hálshöggvinn og krossfestur.“

Hrafn minnir á að „glæpur“ unga mannsins er sá að hafa krafist lýðræðis, með síma að vopni. En, hvað er það nákvæmlega sem þú vilt að Ólafur Ragnar geri?

„Hann á augljóslega að setja sig í samband við Salman konung Sádí-Arabíu, koma á framfæri sjónarmiðum Íslendinga í mannréttindamálum, og biðja unga manninum griða.“

Hakkarar herja á vefsíður í Sádi-Arabíu

Málið hefur vakið heimsathygli og er Hrafn ekki einn um að láta að sér kveða. Hér er til að mynda fjallað um aðkomu hakkara sem berjast fyrir lífi Ali, með árásum á opinberar vefsíður í Sádi-Arabíu. Hökkurum tókst að leggja undir sig síðurnar í nokkrar klukkustundir og náðu meðal annars yfirráðum á síðu dómsmálaráðuneytisins. Hópurinn segir að aðgerðir til þessa séu aðeins lágvært forspil að þeim ósköpum sem dynja yfir, ef Ali verður líflátinn.

Hrafn bendir á að í sumar var sádi-arabískum leyniskjölum lekið, þar sem greint var frá samskiptum forseta Íslands og sendiherra Sádi-Arabíu. „Ólafur Ragnar Grímsson forseti er sagður hafa hrósað Sádi-Arabíu og farið fram á nánara samband þjóðanna,“ sagði í frétt Stundarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×