Innlent

Fyrsti sérsmíðaði björgunarbáturinn á Íslandi afhentur

Atli Ísleifsson skrifar
Báturinn hefur hlotið nafnið Stefnir.
Báturinn hefur hlotið nafnið Stefnir. Mynd/HSSK
Rafnar ehf. afhenti í dag Hjálparsveit skáta í Kópavogi (HSSK) nýjan tíu metra leitar- og björgunarbát sem er fyrsti sérsmíðaði björgunarbáturinn á Íslandi frá upphafi.

Í tilkynningu kemur fram að báturinn hafi hlotið nafnið Stefnir og byggi á byltingarkenndri hönnun og bátasmíði Rafnar ehf., og hafi mikla þýðingu fyrir björgunar- og leitarstarf við landið.

Kristján Maack, formaður Hjálparsveitar skáta í Kópavogi, segir að Stefnir boði tímamót í björgunarstarfi, enda sé þetta í fyrsta sinn sem björgunaraðilar hérlendis fá björgunar- og leitarbát sem sé sérsmíðaður á Íslandi.

„Þeir bátar sem hingað til hafa verið verið til staðar, hafa komið notaðir til landsins, helst frá Bretlandi. Sá yngsti er nú 17 ára og sá elsti 37 ára og munar um minna að fá nú sérhæfðan og splunkunýjan bát.

Við erum nú í fyrsta sinn með yfirbyggðan bát sem gerir hann úthaldsmeiri í verkefnum, hlífir mannskapnum fyrir veðri og vindum, eykur til muna öryggi björgunarsveitarfólks og ræður við verra sjóveður í ófyrirséðum björgunarverkefnum,“ segir Kristján.

Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Rafnar, segir að báturinn sé fyrsti leitar- og björgunarbáturinn í Leiftur-seríu fyrirtækisins en hann er hafi verið hannaður og prófaður í samvinnu við Hjálparsveitina og Landsbjörgu.

„Hann nær 40 hnútum og hefur sæti fyrir 6 og hægt er að koma fyrir tveimur sjúkrabörum. Þetta er vonandi bara fyrsta skrefið í að efla til muna öryggi við strendur landsins með endurnýjun björgunarbátaflotans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×