Innlent

Einn af hverjum þrettán Íslendingum einhverntíman farið í meðferð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á árinu 2014 komu 1.552 einstaklingar í afeitrun á Vog.
Á árinu 2014 komu 1.552 einstaklingar í afeitrun á Vog. vísir/e.ól.
Tæplega einn af hverjum þrettán Íslendingum, 15 ára og eldri, hafði komið í meðferð til SÁÁ um síðustu áramót. Hlutfallið er talsvert hærra á körlum en einn af hverjum tíu hafði farið í meðferð en ein af hverjum tuttugu konum. Þetta kemur fram í frétt á vef SÁÁ.

Alls höfðu 23.580 einstaklingar leitað meðferðar hjá SÁÁ í árslok 2014 en samtökin tóku til starfa síðla árs 1977. Af þessum 23.580 hafa 11.684 eða 49,4% komið einu sinni. 18.350, eða 77,8% alls hópsins,  hafa komið þrisvar sinnum eða sjaldnar.

Tæplega 700 núlifandi einstaklingar hafa komið oftar en tíu sinnum í meðferð en það eru um þrjú prósent sjúklingahópsins. Af þeim eru 501 karl og 198 konur. 199 einstaklingar úr þessum hópi komu til meðferðar í ár.

Þegar aldurshópar eru skoðaðir sést að 14,6% núlifandi karlmanna á aldrinum 50-59 ára hafa komið í meðferð til SÁÁ en 14,1% karla 60-69 ára. Hjá konum hafa hlutfallslega flestar komið úr aldurshópnum 60-69 ára, 6,1%, en 6,0% á aldrinum 50-59 ára.

Á árinu 2014 komu 1.552 einstaklingar í afeitrun á Vog, 1.060 karlar en 492 konur. Innlagnir voru alls 1.997.  576 einstaklingar komu í fyrsta skipti á Vog á árinu 2014.

Taflan sýnir aldursdreifingu þeirra sem komið höfðu í meðferð í árslok 2014.mynd/sáá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×