Innlent

Úrskurðaður í gæsluvarðhald: Grunaður um þjófnað og að tengjast skipulögðum erlendum glæpasamtökum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. vísir/gva
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir einstaklingi sem grunaður er um að hafa stolið ýmsum munum að verðmæti um milljón króna. Á dvalarstað mannsins fannst kvittun fyrir póstsendingu sem var 18,5 kíló að þyngd og leikur grunur á að hann hafi komið þýfi úr landi.

Maðurinn var handtekinn ásamt félaga sínum á dvalarstað þeirra þann 27. september síðastliðinn. Þar fannst mikið magn af ætluðu þýfi. Þegar hafi verið borin kennsl á hluta munanna sem stolnar vörur frá verlsunum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki hafi þeir áður komið í kast við lögin en í ágústmánuði voru þeir grunaðir um þjófnað í verslunum í Kópavogi, Reykjavík og Selfossi. Stálu þeir meðal annars matvöru og snyrtivörum.

Mennirnir tveir sem um ræðir komu til landsins í júlí og hafa báðir stöðu hælisleitanda hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Europol er maðurinn grunaður um fjölda brota á Norðurlöndunum. Grunur leikur á að maðurinn tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Það er mat lögreglu að brýnt sé að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin vera á því að hann kunni að torveldi rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að tala við mögulega samverkamenn sína og reyna að hafa áhrif á þeirra framburð og koma undan þýfi.

Hæstiréttur féllst á röksemdir héraðsdóms um að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Var maðurinn því úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag til klukkan 16.00. Sætir hann einangrun á meðan varðhaldinu stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×