Innlent

Nýr sendiherra Norður-Kóreu heimsótti Bessastaði

Bjarki Ármannsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson (t.v.) og Kang Yong Dok, sendiherra Norður-Kóreu.
Ólafur Ragnar Grímsson (t.v.) og Kang Yong Dok, sendiherra Norður-Kóreu. Mynd/Forseti Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók þann fimmtánda september síðastliðinn við trúnaðarbréfi nýs sendiherra Norður-Kóreu á Íslandi, Kang Yong Dok.

Að því er segir um fundinn á vef forsetans, var meðal annars rætt um áhuga norður-kóreskra stjórnvalda á aukinni nýtingu hreinnar orku og reynslu Íslendinga á því sviði auk þess sem sendiherrann lýsti áhuga á að efla árangursríka efnahagssamvinnu við önnur ríki.

Kang er sendiherra Norður-Kóreu í Stokkhólmi og gagnvart Íslandi, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Lettlandi og Litháen. Ekkert er vitað um Kang en hans er fyrst getið í ríkisfréttamiðli Norður-Kóreu þegar greint er frá skipun hans í þetta embætti.

Greint var frá því á sínum tíma að Pak Kwang Chol, forveri Kang í embættinu, var kallaður aftur til Norður-Kóreu í desember árið 2013 um það leyti sem nánum samstarfsmanni hans, Jang Sung-taek nokkrum, var vikið frá störfum og hann rekinn úr Verkamannaflokki Kóreu.

Ríkismiðill landsins greindi síðar frá því að Jang hefði verið tekinn af lífi. Ekkert er vitað um afdrif fyrrverandi sendiherrans Pak en erlendir fréttamiðlar segja að margir af nánum ættingjum Jang hefðu einnig verið drepnir.

Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur gerst sek um margs konar mannréttindabrot í gegnum tíðina. Ekki kemur fram á vef forsetans hvort mannréttindamál hafi verið rædd á fundinum á Bessastöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×