Innlent

Segir flutninginn hafa verið valdsýningu fyrir fjölmiðla

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Að sögn Hólmgeirs Elíasar Flosasonar lögmanns voru ákærðu bornir inn í dómsal með miklum tilburðum í viðurvist fjölmiðla. Á myndinni má sjá fjölda lögregluþjóna þegar Börkur er borinn inn. Hólmgeir segir það hafa verið ljóst að Börkur var sárþjáður vegna brjóskloss og hann hafi þurft að leita sér aðhlynningar í kjölfarið.
Að sögn Hólmgeirs Elíasar Flosasonar lögmanns voru ákærðu bornir inn í dómsal með miklum tilburðum í viðurvist fjölmiðla. Á myndinni má sjá fjölda lögregluþjóna þegar Börkur er borinn inn. Hólmgeir segir það hafa verið ljóst að Börkur var sárþjáður vegna brjóskloss og hann hafi þurft að leita sér aðhlynningar í kjölfarið. vísir/antonbrink
„Um mjög svipað leyti fór Börkur á heilsugæslustöð þar sem hann sat ójárnaður á biðstofunni með tveimur fangavörðum innan um gamalmenni og börn. Þeir eru ekki taldir hættulegri en það,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs Kristjáns Karlssonar í sakamáli gegn honum og Berki Birgissyni vegna andláts samfanga þeirra á Litla-Hrauni í maí 2012.

Saksóknari krefst þess að Hólmgeiri verði dæmd réttarfarssekt fyrir ummæli sem hann lét falla við þingfestingu málsins í júní 2013. Ummæli Hólmgeirs voru í þá veru að með flutningi Annþórs og Barkar fyrir dóminn væri verið að setja á svið einhvers konar valdsýningu fyrir fjölmiðla.

Hólmgeir Elías Flosason
Í greinargerð ákærða, Annþórs, sem lögð var fram í málinu í byrjun september segir að saksóknara hafi þótt fara betur að ræsa út sérsveit ríkislögreglustjóra til þess að flytja ákærðu með miklum tilburðum í dómssal í viðurvist fjölmiðla. Var Börkur borinn inn flatur og honum hent á gólfið fyrir framan dómaraborðið, en ljóst var að hann var sárþjáður vegna brjóskloss. Hann þurfti í kjölfarið að leita sér aðhlynningar.

„Þarna lá það fyrir að fjölmiðlar yrðu á staðnum og þeir voru bornir inn í fylgd margra sérsveitarmanna. Ég held því fram að þarna hafi verið sett á svið sýning á valdi lögreglunnar gegn glæpamönnum,“ segir Hólmgeir.

Þá segir í greinargerðinni að rökstuðningur flutningsins hafi verið að ákærðu væru sérstaklega hættulegir almenningi og umhverfi sínu og því væri einfaldlega ekki boðlegt að færa þá fyrir dóminn með venjubundnum hætti í fylgd fangaflutningamanna. „Þó er látið óátalið að ákærðu fari í fylgd tveggja fangavarða þegar þeir fara á almenningsstaði þar sem fjölmiðlafólk er ekki,“ segir Hólmgeir.

Dómarinn spurði Hólmgeir hvort hann vildi draga umrædd ummæli til baka. Hólmgeir svaraði því neitandi. „Ég er fullviss um að þetta hafi verið raunin og ég ætla að standa við orð mín.“

Aðalmeðferð málsins fer fram í október næstkomandi, rúmum þremur árum eftir að þeir voru ákærðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×