Innlent

Hægt að drekka vatn frá Mars og nýta það í ræktun

Birgir Olgeirsson skrifar
Fljótandi vatn er að finna á Mars.
Fljótandi vatn er að finna á Mars. Vísir/EPA/NASA
„Þetta er bara staðfesting á fyrri hugmyndum,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, um vatnsfundinn á Mars. Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, greindi frá því fyrr í dag að fljótandi vatn finnst á yfirborði plánetunnar.

Sævar Helgi segir þessa niðurstöðu staðfesta það sem marga grunaði. „Menn hafa verið að leita að staðfestingu á því sem þeir sáu árið 2011. Meira segja nokkrum árum áður, í leiðangri Phoenix geimfarsins til Mars árið 2008, þá sáust dropar á fótum geimfarsins sem lenti við norðurpól Mars. Droparnir voru blandaðir saltvatni og urðu menn fyrst varið við það þá,“ segir Sævar Helgi.

Þá sást einnig vatn á myndum HiRice-myndavélarinnar árið 2011 og nú hefur það verið staðfest með tilkynningunni frá því fyrr í dag. En hvaða þýðingu hefur þessi fundur fyrir okkur jarðarbúa og fyrirhugaðar mannaðar ferðir til Mars í framtíðinni?

Sævar Helgi Bragason.vísir/anton
Hægt að gera það drykkjarhæft

Sævar Helgi segir möguleika á að drekka vatnið, eftir að saltið hefur verið hreinsað úr því. „Af því gefnu að það væri búið að hreinsa það. Það er svo rosalega salt eins og staðan er núna, það er eina leiðin til að það geti haldist fljótandi við þessar aðstæður sem er á Mars. Það þyrfti að sía það og gera það drykkjarhæft, en með smá hreinsun þá gæti það verið hægt. Þá er allavega komin vatnslind sem menn geta nýtt sér í framtíðinni. Menn gætu svo sem líka gert það annar staðar, bara við miðbaug Mars þar sem hafa fundist gígar sem eru uppfullir af ís rétt undir yfirborðinu.“

Þessi tilkynning kemur sér væntanlega vel fyrir leikstjórann Ridley Scott varðandi kynningu á mynd hans The Martian sem er væntanleg í kvikmyndahús um allan heim. Myndin er byggð á samnefndri vísindaskáldsögu frá árinu 2011 eftir bandaríska rithöfundinn Andy Weir en hún segir frá geimfaranum Mark Watney sem er skilinn eftir á Mars og þarf að beita öllum brögðum til að halda lífi á þessari harðgerðu plánetu.

Gæti nýst við ræktun

Myndin líkir eftir þeim hugmyndum sem NASA hefur um mannaðar geimferðir til Mars og hefur árið 2030 verið nefnt í því samhengi. Sævar Helgi segir jarðarbúa þó ekki á leið ekki á leið til plánetunnar eftir fimmtán ár eins og staðan er í dag. „Það er engin áætlun uppi í sjálfu sér þó menn séu alltaf að tala um það. Það eru ekki til peningar. Það er ekki raunhæft að við séum að fara á Mars eftir fimmtán ár, því miður.“

Í myndinni The Martian þarf Watney til að mynda að finna leiðir til að rækta mat á Mars og er forvitnilegt að fylgjast með því ferli öllu saman. Sævar Helgi segir möguleikann á ræktun á Mars fyrir hendi og þá gæti þessi vatnsfundur nýst við hana. „Við vonum bara að við náum að rækta eitthvað fjölbreyttara en kartöflur og vonandi bara ekki með sömu aðferð og Mark Watney þurfti að beita til að gera það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×