Innlent

Vilja að ellefu ára stelpur fái að æfa inni eins og strákarnir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Foreldrarnir eru ósáttir við að strákarnir fái að æfa inni en ekki stúlkurnar. Íþróttastjóri segist ætla að finna lausn á málinu.
Foreldrarnir eru ósáttir við að strákarnir fái að æfa inni en ekki stúlkurnar. Íþróttastjóri segist ætla að finna lausn á málinu. vísir/gva
Foreldrar stúlkna í fimmta flokki í knattspyrnu hjá Víkingi Reykjavík eru ósáttir við að einungis drengjum í sama flokki hafi verið úthlutað innivelli til æfinga, en stúlkunum ekki. Auglýst hafði verið að hver flokkur fengi einn dag í viku í Egilshöll í vetur, en nú fyrir skömmu var foreldrum stúlknanna tilkynnt að allar þeirra æfingar færu fram á útivelli Víkings.

Nokkrir foreldrar hafa lagt inn kvörtun til þjálfara stúlknanna, sem vísað hefur erindinu til Ólafs Ólafssonar, íþróttastjóra Víkings. Hann segir að vel komi til greina að skoða málið.

„Það stóð til að við fengjum heilan völl í miðri viku fyrir 5. flokk karla og kvenna. Reykjavíkurborg úthlutaði okkur hins vegar bara hálfum velli og þá urðum við að velja annan flokkinn,“ segir Ólafur í samtali við Vísi. Þegar hafði verið ákveðið að stúlkur í 3. og 4. flokki fengju sinn tíma á innivelli, en strákarnir ekki, og því hefði þetta verið niðurstaðan.

„Þetta er í raun þannig að 3. og 4. flokkur kvenna fékk tíma á móti 5. flokki karla, en strákarnir í fyrrnefndum flokkum ekki. Þannig að það er ekkert kynjamisrétti í gangi hérna, enda kvennastarf Víkings mjög virkt.“

Foreldri sem Vísir ræddi við í dag sagðist hafa komið með þá uppástungu að tímunum yrði skipt þannig að hver flokkur fengi innitíma aðra hverja viku. Ólafur segist vel tilbúinn til að skoða það, sem og aðrar lausnir.

„Ef það er þeirra ósk. Vandamálið er bara að það flækir hlutina því fólk kannski man ekki hvort það sé þessi vika eða hin. Það væri frekar að hafa einhverja öðruvísi skiptingu á því, en það er minnsta mál að skoða það, eftir því hver vilji fólksins eða þjálfaranna er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×