„Það mikilvægasta í þessu er kannski það að núna munu fjarskiptafyrirtækin loka á þessar vefsíður burtséð frá því undir hvaða léni þær eru,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF. Eftir lögbannið í Hæstarétti skiptu aðstandendur Deildu.net um lén strax í kjölfar dómsins. Nú verður nýjum síðum lokað samstundis.
„Það sem hefur tekist að gera eftir að málið vannst í Hæstarétti, þar sem var staðfest að það skyldi lagt lögbann á lokun þessara síðna, að nú erum við búin að gera þetta samkomulag við fjarskiptafyrirtæki um það hvernig beri að framfylgja þessu. Hvernig við ætlum að túlka og framfylgja lögbanninu,“ segir Guðrún.

Í dag eru í boði leiðir til þess að nálgast dagskrárefni innlendra sjónvarpsstöðva og geta notendur með þeim sótt dagskrárefni á þeim tíma og stað sem hentar hverjum og einum. Notkun á slíkri þjónustu hefur aukist um tæp 300% frá árinu 2011 þegar þjónustan var tekin upp og einnig hafa þjónustur á borð við Netflix verið að ryðja sér til rúms hérlendis á undanförnum árum. Nokkrar löglegar tónlistarveitur eru hér á landi, og er Spotify sú stærsta en talsvert hefur verið fjallað um að tónlistarmenn fái ekki nógu mikið greitt fyrir streymi af efni sínu inn á slíkum veitum.
„Það má ræða það hvort listamenn séu að fá nægilegt greitt frá þessum tónlistarveitum. Svo sannarlega vildi maður sjá hærri greiðslur en það hefur þó allavega breytt landslaginu þannig að þeir eru að fá eitthvað greitt. Þetta er ekki lengur bara einn stór sjóræningjamarkaður heldur er komið einhvers konar viðskiptamódel sem hægt er að vinna með og mun kannski hafa meiri tekjumöguleika í för með sér.“
Guðrún segir samkomulagið vera skref í baráttunni gegn ólöglegri dreifingu á afþreyingarefni og þessar löglegu tónlistarveitur á borð við Tónlist.is og Spotify bjóði upp á aðgengi að löglegu afþreyingarefni á netinu. Margt hafi breyst til batnaðar á undanförnum árum og rétthafasamtökin láti engan bilbug á sér finna. „Við ætlum ekkert að gefast upp í þessari baráttu gegn þessum vefsíðum sem dæmdar eru ólöglegar.“