Lífið

Hugleiki Dagssyni hent út af Facebook

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hugleikur hefur áfrýjað ákvörðuninni.
Hugleikur hefur áfrýjað ákvörðuninni. Samsett/Hugleikur

Hugleiki Dagssyni hefur verið hent út af Meta-aðgöngum sínum fyrir að brjóta reglur miðlanna. Hann veit ekki um hvaða mynd sé að ræða en spýtukallanekt viðrist fara fyrir brjóstið á algóritma Meta.

Í færslu sem samstarfskonu Hugleiks tókst einhvern veginn að birta á síðu hans segir að honum hafi verið formlega hent út af Facebook og Instagram vegna spýtukallateikninga sinnar.

„Ég veit ekki hvert var síðasta stráið en undanfarið hafa þeir verið að fjarlægja nakta spýtukalla og andfasísk skilaboð. Þetta er heimurinn sem við lifum í,“ skrifar hann á ensku.

Síðustu skilaboðin sem hægt var að birta á Facebook-síðunni.Hugleikur Dagsson

Í samtali við fréttastofu segist Hugleikur þó ekki vita hvaða mynd það var sem fór svo fyrir brjóstið á algórithma Meta að reikningunum var lokað. 

„Ég hef verið að fá viðvaranir upp á síðkastið og farið varlega og kynnt mér reglurnar um hvað má,“ segir Hugleikur en Facebook hefur áður hótað að loka reikningum hans vegna naktra spýtukalla.

„Ég hélt ég hefði ekki brotið neinar reglur en ég veit ekki hvað það var. Það gæti hafa verið eitthvað gamalt.“

Hugleikur segir að áður en reglur um nekt voru settar birti hann slíkar skopmyndir. Ástæða bannsins gæti því hafa verið að einhver hafi rekist á gamla mynd, misboðið og tilkynnt hana til Meta. Hann veit hins vegar að um var að ræða færslu á Instagram, sem komi á óvart því hann hafi fengið færri áminningar þar og reglurnar þar séu ekki eins strangar og á Facebook.

„Þess vegna kom þetta óvart, ég vissi ekki að það væri hægt að banna mig á báðum vígsstöðum fyrir brot á öðrum.“

Getur ekki reitt sig á vendarengil

Hugleikur áfrýjaði banninu undir eins og fékk þá tilkynningu um að málið yrði tekið til skoðunar. Það sem kom ekki fram áður en hann áfrýjaði var að ef starfsfólk Meta teldi reikninginn brjóta reglur yrði heila klabbinu eytt. Um er að ræða annað skiptið sem Hugleik er hent út en ónefndur verndarengill bjargaði honum í fyrra skiptið.

„Hann sendi mér skilaboð án þess að segja hver hann væri því hann mátti það ekkert. Einhver aðdáandi og verndarengill innan Facebook sem laumaði mér aftur inn. Þetta er einhver secret superhero. En ég ætla ekki að reiða mig á að hann komi mér aftur til bjargar,“ sagði Hugleikur í viðtali á Vísi í ágústmánuði.

„Ég þori ekki að jinx-a það og líka bara sá aðili var svo næs við mig í það skipti en ég get ekki reitt mig á góðmennsku þeirra á allt. En aldrei að vita, þá ég bara einhvern vendarengil þar,“ segir hann aðspurður hvort hann vonist til að verndarengillinn aðstoði hann aftur.

„Ég væri að sjálfsögðu mjög þakklátur.“

Vegna bannsins hefur Hugleikur leitað á önnur mið og stofnaði aðgang á Bluesky. Að auki er hann með reikning á Patreon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.