Innlent

Skipstjóra láðist að ræsa sjálfvirkan ferilvöktunarbúnað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þyrlusveitir gæslunnar hafa verið á fullu í dag.
Þyrlusveitir gæslunnar hafa verið á fullu í dag. vísir/vilhelm
Mikið álag hefur verið á þyrlusveitum Landhelgisgæslunnar í dag. Síðan klukkan fimm í nótt hafa þyrlurnar farið í alls fimm útköll. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Um klukkan fimm í nótt voru þyrla og varðskip kölluð út til að leita að línuskipi norður af landinu en skipið hafði horfið úr sjálfvirkri ferilvöktun. Er ekki náðist samband við skipið voru þyrla og nærliggjandi skip send á síðasta þekkta stað. Skipið fannst um klukkan tíu en skipstjóri þess hafði gleymt að ræsa ferilvöktunarbúnað fyrir viðkomandi hafsvæði og ekki hlustað á neyðarrásir. Mál hans verður rannsakað af lögreglu.

Á leiðinni heim að norðan var óskað eftir þyrlu í farþegaskip um 170 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum. Skömmu síðar kom önnur beiðni frá skemmtiferðaskipi og þess að auki hafa þyrlurnar verið kallaðar út í tvö önnur mál í dag.

Nú fyrir skemmstu var Björgunarsveitin Blakkur á Patreksfirði kölluð út vegna tveggja göngumanna sem hugðust ganga upp á fjallgarðinn milli Patreks- og Tálknafjarðar. Þeir lentu hins vegar í sjálfheldu. Þeir gátu gefið góðar upplýsingar um staðsetningu sína og er talið að þeir séu í Hlíðardal, um fjórum kílómetrum fyrir utan Patreksfjörð.

Björgunarmenn eru á leið til þeirra. Veðurfar er með besta móti á svæðinu sem stendur en óvíst er hvernig aðstæðurnar hjá mönnunum eru. Ekki er vitað hve langan tíma björgunarstörf munu taka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×