Fótbolti

Tíu leikmenn Paris Saint-Germain sáu um Lille

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Frönsku meistararnir í Paris Saint-Germain unnu fyrsta leik frönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld þrátt fyrir að hafa misst mann af velli eftir hálftíma leik.

PSG sem hefur orðið franskur meistari undanfarin þrjú ár lék í kvöld án Zlatan Ibrahimovic sem og nýjasta leikmanni liðsins, Angel Di Maria. Þrátt fyrir það gat Laurent Blanc, knattspyrnustjóri PSG, stillt upp sterku liði gegn Lille sem lenti í 8. sæti á síðasta tímabili.

Franski miðjumaðurinn Adrien Rabiot sem hefur verið orðaður við Tottenham í sumar virtist vera aðeins of spenntur að hefja leik á ný en hann fékk tvö gul spjöld með aðeins tveggja mínútna millibili um miðbik fyrri hálfleiksins og léku gestirnir því manni færri í rúmlega klukkutíma.

Þrátt fyrir það voru það gestirnir frá París sem skoruðu eina mark leiksins en þar var að verki brasilíski kantmaðurinn Lucas Moura í upphafi seinni hálfleiks.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu á lokamínútum leiksins að sækja að marki Parísarliðsins án árangurs og lauk leiknum því með 1-0 sigri frönsku meistaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×