Innlent

Tvær líkamsárásir í miðborginni í nótt

Heimir Már Pétursson skrifar
Árásirnar voru báðar gerðar í Austurstræti.
Árásirnar voru báðar gerðar í Austurstræti. Vísir/Vilhelm
Tvær líkamsárásir áttu sér stað í miðborginni í nótt. Lögreglu barst tilkynning um klukkan þrjú að dyraverðir væru með mann í tökum á skemmtistað í Austurstræti. Þar var tvítugur maður handtekinn eftir að hafa veist að pari sem hann þekkti.

Í tilkynningu lögreglu segir að maðurinn hafi verið mjög æstur og verði að gista fangaklefa þar til hann verði í ástandi til að gefa skýrslu um athæfi sitt.

Klukkustund síðar var svo óskað eftir sjúkrabifreið í Austurstræti þar sem maður hafði verið sleginn í höfuð framan við Vínbúðina. Hann var fluttur á slysadeild.

Engar upplýsingar eru um áverka að sögn lögreglu og enginn hefur verið handtekinn. Hins vegar segir lögregla að þriggja manna sé leitað í miðborginni í tengslum við þessa líkamsárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×