Innlent

Slasaðist eftir að hafa fallið af vélsleða við Sólheimajökul

Atli Ísleifsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitin Víkverji og Björgunarsveitin Dagrenning kallaðar út um klukkan 15 vegna konu sem hafði fallið af vélsleða við Sólheimajökul.

Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir að björgunarmönnum hafi tekist að komast að slysstað en hún er talin slösuð á öxl, jafnvel brotin.

„Þyrlan var því kölluð til en þar sem loft var mjög ókyrrt og mikill vindur átti hún erfitt með að lenda á slysstað. Var því ekið afar varlega með konuna niður að Sólheimaskála og lenti þyrlan þar um fjögurleytið. Verður konan tekin um borð og flutt á sjúkrahús til nánari skoðunar og meðhöndlunar.

Um miðnætti í nótt voru þessar sömu sveitir ræstar út ásamt öðrum sveitum á Suðurlandi og hundateymum af höfuðborgarsvæðinu vegna manns sem var týndur í Tindfjöllum. Hann fannst nokkrum klukkustundum síðar eða um hálffjögur leytið. Hafði hann villst af slóðanum á bíl sínum vegna þoku og fest hann í drullu. Gerði hann hið eina rétta, beið eftir aðstoð,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×