Innlent

Hjólum fyrir hundruð þúsunda stolið úr læstri hjólageymslu

Jakob Bjarnar skrifar
Guðbjörg og Lilja á Gay Pride árið 2012. Hjólum þeirra var stolið og er það verulegt tjón sem meta má á umg 200 þúsund krónur.
Guðbjörg og Lilja á Gay Pride árið 2012. Hjólum þeirra var stolið og er það verulegt tjón sem meta má á umg 200 þúsund krónur. Ólafur Kr. Ólafsson
Óprúttnir aðilar gerðu sér lítið fyrir, fóru inn í læsta hjólageymslu og hreinsuðu þar út; stálu í það minnsta tíu hjólum. Þetta var aðfararnótt sunnudags í fjölbýlishúsi í 104 Reykjavík, en 40 íbúðir deila þar geymslunni. Lögreglan hefur reynt að hafa hendur í hári þjófanna með að fylgjast með sölu á þýfi á bland.is.

Lilja Torfadóttir og kona hennar Guðbjörg Árnadóttir eru meðal fórnarlamba þjófanna. „Svo virðist sem viðkomandi hafi komist yfir lykla því það eru engin ummerki um innbrot. Og það varð enginn var við neitt,“ segir Lilja.

Málið var kært en Lilja segist ekkert hafa heyrt frá lögreglunni en hún viti þó að málið sé í rannsókn. En, svo virðist sem einhver hafi hreinlega komið á sendiferðabíl og borið hjólin út.

Mynd af einu hjólanna sem var stolið þegar hreinsað var út úr reiðhjólageymslu fjölbýlishúss aðfararnótt sunnudags.
Hjól þeirra Lilju og Guðbjargar, hjálma og búnað, má meta á um 200 þúsund krónur; nýleg hjól og lítt notuð. Lilja furðar sig á því hversu algengt þetta er að hjólum sé stolið. Hún hefur oft heyrt sögur þess efnis að hjólum sé stolið og þau hverfi í gáma skipa sem eru að sigla.

Og svo eru dæmi þess að reynt sé að selja þýfi á bland.is; þar sem eitt og annað er til sölu. Lilja segir að einhver hjólanna, þó ekki þeirra Guðbjargar, hafi dúkkað þar upp.

„Ég veit að löggan hafði samband við stelpu, nágranna minn og bað hana um að mæla sér mót við þann sem er á Bland að selja hjólið hennar. Hún mun hafa gert það og var að fá hjólið sitt áðan. Þannig að svo virðist sem búið sé að hafa hendur í hári þeirra sem stálu hjólunum,“ segir Lilja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×